Fara í efni
Íþróttir

Skúli stigameistari, sveit GA Íslandsmeistari

Skúli Gunnar Ágústsson, stigameistari 15 til 16 ára. Ljósmynd: golf.is/seth

Skúli Gunnar Ágústsson úr Golfklúbbi Akureyrar varð á dögunum stigameistari í flokki 15 til 16 ára í unglingamótaröð Golfsambands Íslands.

Hann bætti þar með einn rós í hnappagatið, eins og það er orðað á vef Golfklúbbs Akureyrar. „Skúli, sem hefur leikið frábært golf í sumar, varð efstur á stigalistanum með 4360 stig en hann sigraði á tveimur mótum af fimm, varð til að mynda Íslandsmeistari í höggleik. Guðjón Frans, GKG, varð í öðru sæti með 4138 stig og Veigar Heiðarsson GA í 3. sæti með 3928 stig. Veigar var alltaf í einu af fjórum efstu sætunum á mótum tímabilsins og sigraði til að mynda á fyrsta stigamóti tímabilsins,“ segir á vef GA.

Íslandsmeistarar 12 ára og yngri

Þá varð sveit Golfklúbbs Akureyrar Íslandsmeistari í flokki 12 ára og yngri um síðustu helgi Sveitin sigraði í fjórum leikjum af fimm og gerðu eitt jafntefli, en skipuðu Arnar Freyr Viðarsson, Ágúst Már Þorvaldsson, Baldur Sam Harley og Egill Örn Jónsson. 

GA sendi aðra sveit til keppni skipaða yngri strákum og hún varð í öðru sæti á þeim vettvangi; unnu tvo leiki og töpuðu einum. Sveitina skipuðu Askur Bragi Heiðarsson, Axel James Wright, Bjarki Þór Elíasson, Bjarni Sævar Eyjólfsson og Kristófer Áki Aðalsteinsson.

Íslandsmót í sveitakeppni 19 til 21 árs fór einnig fram um síðustu helgi og þar varð sveit GA í 5. sæti. Sveitina skipuðu þeir Gunnar Aðalgeir Arason, Mikael Máni Sigurðsson, Óskar Páll Valsson, Patrik Róbertsson og Veigar Heiðarsson.

Íslandsmeistarar GA í sveitakeppni 12 ára og yngri: Arnar Freyr Viðarsson, Ágúst Már Þorvaldsson, Baldur Sam Harley og Egill Örn Jónsson.