Fara í efni
Íþróttir

Sigur eða sumarfrí bæði í blaki og handbolta

Burðarásar: Miguel Mateo Castrillo og Rut Arnfjörð Jónsdóttir. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Tveir mjög mikilvægir íþróttaleikir eru á dagskrá í KA-heimilinu í dag. Annars vegar tekur karlalið KA í blaki á móti Aftureldingu í undanúrslitum Íslandsmótsins og hins vegar kvennalið KA/Þórs í handbolta á móti Stjörnunni í úrslitakeppni Íslandsmótsins.

  • KA og Afturelding hefja blakleikinn klukkan 14.00.

Þetta er önnur viðureign liðanna, Afturelding vann þá fyrstu 3:1 á heimavelli og KA-menn verða að vinna í dag til að fá oddaleik á útivelli því tvo sigra þarf til að komast í úrslit. Það er sem sagt að duga eða drepast fyrir KA-strákana.

  • Handboltaleikur KA/Þórs og Stjörnunnar hefst klukkan 17.00.

KA/Þór tapaði 24:19 fyrir Stjörnunni í Garðabæ og Stelpurnar okkar verða því að vinna í dag; líkt og í blakinu fer lið áfram sigri það í tveimur leikjum. Vinni KA/Þór í dag mætast liðin þriðja sinni í Garðbæ. Sigurliðið í rimmunni leikur til undanúrslita um Íslandsmeistaratitilinn.