Fara í efni
Íþróttir

Sheldon Reasbeck hættur með SA-liðin

Íslandsmeistaratitlinum fagnað í apríl. Á myndinni eru Jóhann Þór Jónsson, úr heilbrigðisteymi SA, Leifur Ólafsson liðsstjóri, Ingvar Þór Jónsson, annar aðstoðarþjálfara SA Víkinga, Sheldon Reasbeck, fráfarandi þjálfari, Sigurður S. Sigurðsson, formaður SA og Ari Gunnar Óskarsson liðsstjóri. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Hokkílið SA eru að ganga í gegnum breytingar í þjálfaramálum þar sem Sheldon Reasbeck er hættur störfum hjá félaginu af persónulegum ástæðum, en hann þjálfaði bæði karla- og kvennaliðið. 

Sheldon Reasbeck og stjórn hokkídeildar Skautafélags Akureyrar hafa komist að samkomulagi um starfslok hans sem þjálfara beggja meistaraflokksliða félagsins og frá öðrum störfum fyrir félagið. Sheldon hættir störfum hjá SA af persónulegum ástæðum. Hann kláraði Continental Cup með SA Víkingum, með stæl að segja má því liðið vann eistnesku meistarana í framlengingu í lokaleik sínum í riðlinum. Sheldon gerði SA Víkinga að Íslandsmeisturum á síðasta tímabili.

 

Sheldon Reasbeck með gullpeninginn eftir að endurheimti Íslandsmeistaratitilinn með SA Víkingum síðastliðið vor. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Stjórn hokkídeildar SA á í viðræðum við nýjan þjálfara um að taka við þjálfun beggja liðanna, en málin hafa verið leyst til bráðabirgða hjá báðum meistaraflokksliðunum. Björn Már Jakobsson og Ingvar Þór Jónsson, sem voru aðstoðarþjálfarar Sheldons, stýra liðinu um hríð þar til nýr þjálfari hefur verið ráðinn, en verða síðan áfram aðstoðarþjálfarar. Ingvar Þór hefur reyndar tekið fram skautana að nýju og spilað með liðinu að undanförnu.

Rauður 24 og 25 eru eldri en tvævetur í hokkíinu. Hér fagna þeir Íslandsmeistaratitlinum 2016. Ingvar Þór Jónsson til vinstri og Björn Már Jakobsson hafa verið aðstoðarþjálfarar SA Víkinga og taka nú tímabundið við stjórn liðsins af Sheldon Reasbeck þar til nýr þjálfari hefur verið ráðinn. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Richard Tahtinen hefur tekið við þjálfun kvennaliðsins til bráðabirgða og er Hank Nagel, bandaríski leikmaðurinn í liði SA Víkinga, aðstoðarþjálfari hans. Richard er SA-fólki að góðu kunnur enda hefur hann áður komið að þjálfun hokkíliða félagsins.

Reiknað er með að ráða nýjan þjálfara sem myndi taka við þjálfun beggja meistaraflokksliðanna. 

Richard Tahtinen til vinstri í leik með SA Víkingum 2024. Mynd: Skapti Hallgrímsson. Hank Nagel til hægri, en hann verður aðstoðarþjálfari kvennaliðs SA. Hér er hann að loknum 4-0 sigri á Fjölni í Egilshöllinni þar sem hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir SA. Myndin er af Facebook-síðu íshokkídeildar SA.