Fara í efni
Íþróttir

SA-strákarnir unnu fyrsta leik í Búlgaríu

SA-strákarnir unnu fyrsta leik í Búlgaríu

Karlalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí, SA Víkingar, hóf keppni í dag í fjögurra liða riðli 1. umferðar Evrópukeppni meistaraliða. Keppt er í Sofia, höfuðborg Búlgaríu, og SA-strákarnir byrjuðu glæsilega; sigruðu heimamenn í NSA Sofia, 6:5, eftir framlengingu og bráðabana.

Staðan var 1:1 eftir fyrsta leikhluta, 3:3 eftir þann næsta og 5:5 eftir þriðja og síðasta hluta hefðbundins leiktíma. Þá höfðu Búlgarir gert tvö síðustu mörkin eftir að SA komst í 5:3

Ekkert var skorað í framlengingu og því gripið til bráðabana.

SA Víkingar voru heilt yfir betri aðilinn í leiknum og sigurinn verðskuldaður, að því er segir á Facebook síðu íshokkídeildar félagsins. Víkingar voru með 47 skot á móti 26.

Jóhann Már Leifsson var valinn maður leiksins en hann gerði 2 mörk í leiknum og skoraði önnur 2 mörk í vítakeppninni. Andri Már Mikaelsson, Gunnar Arason og Birkir Einisson skoruðu hin mörkin.

Róbert Steingrímsson varði 21 skot í marki Víkinga

SA Víkingar mæta KHL Sisak frá Króatíu á morgun og Tartu Valk frá Eistlandi á sunnudaginn. Króatíska liðið vann það eistneska 7:2 í dag.

SA Víkingar keppa í Búlgaríu um helgina