SA Víkingar keppa í Búlgaríu um helgina
Karlalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí, SA Víkingar, hélt áleiðis til Búlgaríu í morgunsárið þar sem Akureyringar taka um helgina þátt í fyrstu umferð Continental Cup, Evrópukeppni meistaraliða.
Átta lið frá jafn mörgum löndum leika um helgina í tveimur riðlum í Sofia, höfuðborg Búlgaríu. Í riðli með SA eru Tartu Valk 494 frá Eistlandi, KHL Sisak frá Krótaíu og heimaliðið, NSA Sofia.
Þetta er í fjórða sinn sem SA-ingar taka þátt í keppninni og einu sinni hefur liðinu tekist að komast áfram í næstu umferð. Riðillinn nú er mjög sterkur að því er segir á vef Skautafélags Akureyrar.
Leikir SA Víkinga eru þessir, að íslenskum tíma:
Föstudag 16:30 NSA Sofia – SA Víkingar
Laugardag 13:00 KHL Sisak – SA Víkingar
Sunnudag 16:30 Tartu Valk 494 – SA Víkingar
- Skv. vef Alþjóða íshokkísambandsins verður hægt að fylgjast með leikjunum í beinu streymi – smellið hér til þess.
Knappur undirbúningur
„Undirbúningurinn hjá SA Víkingum hefur verið nokkuð knappur þar sem að liðið komst ekki á ís fyrr en fyrir rúmri viku en liðið hefur æft að kappi og síðan þá. Leikmannahópurinn hjá SA Víkingum er lítið breyttur frá síðasta tímabili en nokkuð þunnur líkt og oft áður svo snemma á keppnistímabilinu en þrátt fyrir fámenni eru flestir leikmenn liðsins annaðhvort A-landsliðs eða unglingalandsliðsleikmenn núverandi og fyrrverandi,“ segir á vef Skautafélags Akureyrar í morgun.
„Af nýjum leikmönnum ber helst nefna að stjörnukennarinn Ingvar Þór Jónsson hefur dregið fram skautana og mun taka slaginn með drengjunum í Búlgaríu og markamaskínan Andri Freyr Sverrison er kominn aftur á heimaslóðir og kemur til með að styrkja sóknarleikinn hjá liðinu. Hópurinn er annars aðeins skipaður uppöldum leikmönnum úr félaginu sem verður að teljast nokkuð sérstakt og eflaust einstakt í svona öflugri keppni félagsliða í Evrópu og því sérstaklega skemmtilegt að sjá hvernig liðinu reiðir af í keppninni.“