Fara í efni
Íþróttir

SA stelpurnar unnu fyrsta úrslitaleikinn

Shawlee Gaudreault lokaði marki Skautafélags Akureyrar í kvöld. Hún varði þrjú af skotum Fjölnismanna í vítakeppninni, m.a. frá Kristínu Ingadóttur númer 9. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Skautafélag Akureyrar tók frumkvæðið í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitil kvenna í íshokkí í kvöld þegar liðið sigraði Fjölni á heimavelli í fyrsta leik. Þrjá sigra þarf til að tryggja sér titilinn.

Ekkert var skorað á hinum hefðbundnu 60 mínútum, heldur ekki í framlengingu og því þurfti að grípa til vítakeppni. Kolbrún Björnsdóttir skoraði fyrir SA úr fyrsta vítinu og þegar upp var staðið var hún sú eina sem náði því markmiði. Hvort lið fær fimm tilraunar en úrslitin urðu 1:0, ótrúlegt en satt!

Birta Þorbjörnsdóttir markvörður Fjölnis varði skot hinna fjögurra SA-stelpnanna sem reyndu sig gegn henni í vítakeppninni og Shawlee Gaudreault lokaði marki SA enn betur; hún varði þrjú skot og tvívegis skaut Fjölnisstúlka framhjá.

Næstu leikir í úrslitakeppninni:

  • Leikur 2: Laugardag 4. mars í Egilshöll kl. 16:45
  • Leikur 3: Þriðjudag 7. mars í Skautahöllinni Akureyri kl. 19:30
  • 4. leikur – ef með þarf – 9. mars í Egilshöll kl. 19:30
  • 5. leikur – ef með þarf – 11. mars í Skautahöllinni Akureyri kl. 16:45

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Birta Þorbjörnsdóttir markvörður Fjölnis ver skot Önnu Ágústsdóttir í öðrum leikhluta í kvöld. Birta varði svo fjögur af fimm skotum SA-stelpnanna í vítakeppninni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson