Fara í efni
Íþróttir

Rætur meistarans eru á Akureyri

Íslandsmeistarinn í kvennaflokki með foreldrum sínum. Gestur Þórisson, Hulda Clara Gestsdóttir og Lena Heimisdóttir voru að sjálfsögðu alsæl í mótslok. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Akureyringar hafa aldrei eignast Íslandsmeistara í golfi kvenna en sumum fannst við komast býsna nálægt því í gær! Hulda Clara Gestsdóttir úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar sigraði þá örugglega á Íslandsmótinu á Jaðarsvelli og vel var fagnað þegar hún setti niður síðasta púttið á 18. flöt, enda margir úr fjölskyldunni viðstaddir, auk þess sem aðrir fögnuðu meistaranum að sjálfsögðu innilega líka.

Foreldrar Huldu Clöru eru Gestur Þórisson og Lena Heimisdóttir, sem bæði eru fædd og uppalin á Akureyri. Ömmurnar tvær, Hulda Gestsdóttir og Margrét Árnadóttir, sem búa á Akureyri, voru í hópi þeirra sem fögnuðu meistaranum við 18. flöt í gær og stoltið leyndi sér sannarlega ekki. Víða sást tár á hvarmi og skyldi engan undra. Íslandsmeistaratitill þessarar 19 ára stúlku er magnaður árangur og langþráður, þótt hún sé ekki gömul; Hulda Clara sagði í viðtali að hana hefði dreymt um að verða meistari í þrjú ár.

Gleði og stolt! Frá vinstri: Hulda Gestsdóttir, Gestur Þórisson, Hulda Clara, Lena Heimisdóttir, Margrét Árnadóttir og Arnar Heimir Gestsson, 11 ára, sem var kylfusveinn systur sinnar bæði laugardag og sunnudag - að vísu bara á 18. brautinni! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Mæðgurnar Lena Heimisdóttir og Hulda Clara Gestsdóttir féllust í faðma strax eftir að sigurinn lá fyrir. Það var tilfinningaþrungin stund. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Arnar Heimir Gestsson, 11 ára bróðir Huldu Clöru, var kylfuberi systur sinnar, á 18. holu laugardag og sunnudag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslandsmeistarinn var gripinn í viðtal við Ríkissjónvarpið strax eftir síðasta pútt. RÚV sýndi beint frá mótinu bæði laugardag og sunnudag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Til hamingju! Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR, sem varð í öðru sæti, óskar Íslandsmeistaranum til hamingju eftir síðasta púttið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.