Nú er lag að styðja „Stelpurnar okkar“

Lið Þórs/KA seig niður í neðri hluta Bestu deildarinnar í knattspyrnu á lokakaflanum fyrir tvískiptingu hennar eftir að hafa verið lengi í 4. sætinu. Fram undan eru því gríðarlega mikilvægir leikir gegn liðunum fyrir neðan í baráttu þriggja liða um að forðast fall í 1. deild, Lengjudeildina. Fyrsti leikur liðsins í þessum lokakafla verður gegn Tindastóli í Boganum í kvöld.
- Besta deild kvenna í knattspyrnu, neðri hluti
Boginn kl. 19:15
Þór/KA - Tindastóll
Þór/KA og Fram eru með 21 stig, Tindastóll 17 en FHL er með 4 stig og löngu fallið. Hvert lið spilar þrjá leiki; níu stig eru því í pottinum, með sigri tryggja „Stelpurnar okkar“ sæti sitt í deild þeirra bestu og því er lag að mæta og styðja við bakið á þeim. Oft var þörf, en nú er nauðsyn!
Ákall - og ókeypis á leikinn
Fram kemur á vef Þórs/KA í morgun að ókeypis er á leikinn. Minnt er á að þann möguleika að kaupa sér gott í gogginn: „Hægt að sleppa því að elda kvöldmatinn, bara mæta í Hamar og Bogann og eiga alvöru kvöldstund með stelpunum okkar.“
Á vef Þórs/KA var í vikunni ákall Jóhanns Kristins Gunnarssonar, þjálfar Þórs/KA, þar sem hann biðlaði til allra sem hafa áhuga á fótbolta að mæta og styðja stelpurnar:
„Með sigri getur liðið lagt allar pælingar um fallbaráttu til hliðar. Stelpurnar eru staðráðnar í að sýna sitt rétta andlit og leggja allt í þennan leik svo það gangi eftir,“ segir þjálfarinn.
„Ég biðla til allra sem hafa áhuga á fótbolta að mæta í Bogann og styðja liðið í þessari hörðu baráttu. Fáum góða stemningu og hvetjum liðið okkar til dáða. Sendum jákvæða strauma og hvatningu inn á völlinn sem á klárlega eftir að hjálpa stelpunum í þessum leik,“ segir Jóhann Kristinn. „Ekki skemmir fyrir að tryggja vonandi í leiðinni að öll þrjú meistaraflokkslið Akureyrar í fótbolta leiki í efstu deildum fótboltans á næsta ári! Áfram Þór/KA!“
Lífgað upp á stemninguna
- Boðið verður upp á sláarkeppni í leikhléi, glæsileg verðlaun í boði frá ELKO. Keppandi sem hittir í þverslána fær ísvél að verðmæti um 30 þúsund krónur frá ELKO í verðlaun.
- Andlitsmálning í Hamri fyrir leik.
- Tónlistaratriði með Tinnu.
- Ís í boði Kjöríss á meðan birgðir endast.
- Happdrætti, allir gestir fá miða, dregið í leikhléinu, veglegir vinningar.
Næsti leikur Þórs/KA í deildinni er gegn FHL á Reyðarfirði laugardaginn 4. október og í lokaumferðinni tekur Þór/KA á móti Fram í Boganum laugardaginn 11. október.