Fara í efni
Íþróttir

Nú er að duga eða drepast fyrir Þórsara

Arnar Þór Fylkisson og Karolis Stropus í leik á dögunum. Þeir brosa vonandi breitt að leikslokum í k…
Arnar Þór Fylkisson og Karolis Stropus í leik á dögunum. Þeir brosa vonandi breitt að leikslokum í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar taka á móti ÍR-ingum í Olís deild Íslandsmótsins í handbolta í kvöld. Sigur er Þórsurum lífsnauðsynlegur því liðið er næst neðst með fjögur stig eftir 13 leiki en Gróttumenn, sem hafa spýtt í lófana upp á síðkastið og nældu í stig í gærkvöldi með jafntefli gegn FH, eru næstir fyrir ofan Þór með 10 stig í 14 leikjum.

Þórsarar eiga níu leiki eftir og hver þeirra verður í raun upp á líf og dauða. Ástæða er til þess að hvetja fólk til að mæta og hvetja sína menn, en reyndar eru aðeins 200 áhorfendur leyfðir. Skrá þarf nafn, kennitölu og símanúmer allra og því gott að vera tímanlega á ferðinni. Opnað verður fyrir miðasölu klukkan 17.30 og eru ársmiðahafar hvattir til að sækja miðana þegar sala hefst. Einnig verður hægt að kaupa miða í gegnum miðasöluappið stubb, smellið hér til að fara þangað. 

ÍR-ingar, gestir kvöldsins, eru neðstir í deildinni án stiga. Leikurinn hefst klukkan 19.00. Smellið hér til að horfa á beina útsendingu Þór TV. Það kostar 1.000 krónur.

Vakin er athygli á að enn er grímuskylda og áhorfendur eru beðnir að gæta vel að sér, virða fjarlægðarmörk og fara eftir öllum almennum sóttvarnarreglum sem í gildi eru.