Fara í efni
Íþróttir

Naumt tap Þórs fyrir Grindavík í fyrsta leik

Eva Wium Elíasdóttir lék mjög vel í Kópavogi í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór tapaði naumlega fyrir Grindavík í kvöld, 94:87, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum efstu deildar kvenna í körfubolta. Liðin mættust í Smáranum í Kópavogi, þar sem heimaleikir Grindvíkinga hafa farið fram síðustu mánuði.

  • Skorið eftir leikhlutum: 24:28 – 23:16 – 47:44 –27:19 – 20:24 – 94:87

Þórsstelpurnar byrjuðu mjög vel og höfðu fjögurra stiga forystu eftir fyrsta leikhluta en voru komnar þremur stigum undir í hálfleik. Þær lentu í miklum mótbyr í þriðja hluta en bættu sig mjög í lokakaflanum og velgdu Grindvíkingum undir uggum. Komust þó aldrei nær en sex stig.

Liðin mættust í undanúrslitum bikarkeppninnar á dögunum þar sem Þórsstelpurnar sigruðu. Grindvíkingar eru sterkari á pappírnum því lið þeirra varð í öðru sæti deildarinnar en Þórsarar í því sjöunda, en margt býr í Stelpunum okkar, þær gefast aldrei upp fyrr en í fulla hnefana og því verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu.

Helsta tölfræði Þórsara; stig, fráköst, stoðsendingar:

  • Ewa Wium Elíasdóttir 23 – 1 – 5
  • Maddie Anne Sutton  18 – 15 – 4
  • Lore Devos 17 – 10 – 5
  • Eva Snæbjarnardóttir 11 – 2 – 0
  • Hrefna Ottósdóttir 9 – 1 – 2
  • Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 7 – 2 – 1
  • Heiða Hlín Björnsdóttir 2 – 0 – 2

Vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í fjögurra liða úrslitin. Liðin mætast næst í Íþróttahöllinni á Akureyri á laugardaginn og þriðja viðureignin verður í Smáranum í Kópavogi á miðvikudag í næstu viku.