Fara í efni
Íþróttir

Naumt tap KA/Þórs í eltingarleik við Fram

Rut Arnfjörð Jónsdóttir sækir að Framvörninni í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Rut Arnfjörð Jónsdóttir sækir að Framvörninni í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs í handbolta töpuðu fyrsta leik ársins í Olís deild Íslandsmótsins þegar Framarar komu í heimsókn í KA-heimilið í gær. Gestirnir unnu sanngjarnan sigur, 21:20, eftir að hafa verið yfir nánast allan leikinn. 

Fram komst í 3:0 og munurinn var tvö til þrjú mörk þar til seint í hálfleiknum að Fram komst fjórum mörkum yfir, 11:7. Meistararnir lögðu þó ekki árar í bát enda þekktir fyrir allt annað en að gefast upp og staðan í hálfleik var 11:10 fyrir gestina.

Fram hafði frumkvæðið nær allan seinni hálfleik en þegar fimm mínútur voru eftir jafnaði Rakel Sara Elvarsdóttir, 19:19, og kom KA/Þór yfir í næstu sókn – í fyrsta skipti í leiknum.

Fram gerði síðan tvö síðustu mörkin og tryggði sér sanngjarnan sigur. Klaufaskapur í tveimur síðustu sóknunum kom í veg fyrir að KA/Þór næði að skora.

Hafdís Renötudóttir, markvörður Fram, var besti maður vallarins; var frábær og reyndist heimamönnum óþægur ljár í þúfu eins og stundum áður. Hafdís varði 20 skot, þar af eitt víti – 50% skota sem komu á markið.

Rut Jónsdóttir var með KA/Þór á ný, en hún var fjarri vegna meiðsla í síðustu leikjunum fyrir jólafrí. Það skiptir sköpum fyrir meistarana að hún sé heil heilsu enda mikilvægasti maður liðsins. Rut gerði sjö mörk, þar af fimm úr vítum og var best allra á vellinum í sókn. Hún skapaði fjögur færi fyrir samherjana. Aldís Ásta var líka góð í sókn gerði 5 mörk og skapaði að auki sjö færi.

Mörk KA/Þórs: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 7 (5 víti), Aldís Ásta Heimisdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir 5 hvor, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2 og Unnur Ómarsdóttir 1.

Matea Lonac varði 7 skot (35%) og Sunna Guðrún Pétursdóttir varði 6 (42,9%)

„Það var viðbúið að þessi leikur yrði barátta þar sem þetta er fyrsti leikur eftir jólapásu og liðin eru ekki búin að kveikja á gæðunum upp á 10,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, við Akureyri.net.

„Við áttum ekki góðan leik sóknarlega heilt yfir og það var dýrt að fara með mörg góð færi í þokkabót. Varnarlega vorum við lengi í gang en vörnin var þétt seinni hluta leiksins og við hefðum átt að notfæra okkur það betur í hraðaupphlaupum.“

Andri var ósáttur við síðustu tvær mínútur leiksins, þegar Framarar gerðu tvö síðustu mörkin eftir Stelpurnar okkar höfðu komist yfir í fyrsta skipti í leiknum, 20:19 – þegar Rakel Sara Elvarsdóttir skoraði úr horninu þegar þrjár mínútur voru eftir.

„Síðustu tvær mínúturnar voru ekki góðar þar sem þær skoruðu tvö síðustu mörkin, við áttum að gera betur. Síðustu tvær sóknirnar voru slakar og því miður fór þetta svona. Við verðum að halda áfram að vinna í okkar leik og nota æfingar vel fram að næsta leik sem er gegn HK. Það er fullt af hlutum sem við getum byggt á ásamt því að bæta sóknarleikinn okkar. Við ætlum okkur sigur í næsta leik, það er bara þannig!“ sagði Andri Snær.