Fara í efni
Íþróttir

Ná stelpurnar í KA/Þór að endurtaka leikinn?

Lögð á ráðin um sigur! Þjálfarateymi KA/Þórs skaut á stuttum fundi um leið og flautað var til hálfleiks gegn Stjörnunni á fimmtudaginn. Arna Valgerður Erlingsdóttir, Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Andri Snær Stefánsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Í dag kemur í ljós hvort lið KA/Þórs kemst í undanúrslit Íslandsmóts kvenna í handbolta eða heldur út í sumarið og sólina í frí. Þriðji og síðasta leikurinn gegn Stjörnunni fer fram í Garðabæ og hefst klukkan 16.00. Hann verður sýndur beint á Stöð2 Sport.

Stjarnan hafði betur í fyrsta leiknum á heimavelli, 24:19, en Stelpurnar okkar höfðu undraverða yfirburði í KA-heimilinu á fimmtudaginn, léku frábærlega bæði í vörn og sókn og sigruðu með 16 marka mun – 34:18.

Fyrri stóra spurningin er hvort þær ná að fylgja þeirri mögnuðu frammistöðu eftir og tryggja sér rétt til að takast á við Valskonur í undanúrslitunum.

Síðari stóra spurningin er hvort Rut Arnfjörð Jónsdóttir, besta handboltakona Íslands, leikur með KA/Þór í dag. Hún meiddist í fyrri leiknum í Garðabæ og tók aðeins þátt í hluta hans. Hún kom ekkert við sögu á fimmtudaginn nema sem einn þjálfara liðsins. Það kom sannarlega ekki að sök þá en liðið er vitaskuld alla jafna mun sterkara með hana innan vallar.

Umfjöllun Akureyri.net um síðasta leik: Gleðileg sumarbyrjun í boði stelpnanna í KA/Þór

Brosa stelpur! Egill Bjarni Friðjónsson mundar myndavélina í KA-heimilinu á fimmtudaginn. Stjörnustúlkan Britney Emilie Florianna Cots í hraðaupphlaupi býr sig undir að skjóta, Ida Hoberg fylgir henni eftir. Sú síðarnefnda hafði ástæðu til að brosa breitt í leikslok. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson