Mikið breytt Þórslið hefur leik í kvöld
Karlalið Þórs í körfuknattleik hefur leik í 1. deild Íslandsmótsins í kvöld þegar Sindri frá Hornafirði mætir í Íþróttahöllina á Akureyri. Leikurinn hefst kl. 19:15.
Þórsliðið hefur gengið í gegnum talsverðar breytingar frá síðasta tímabili, níu nýir leikmenn bætast við meistaraflokkshópinn auk tveggja ungra og efnilegra Þórsara sem nýverið hafa skrifað undir sína fyrstu samninga við félagið og annarra tveggja ungra Þórsara sem vænta má að muni semja við félagið áður en langt um líður. Þá hefur nýtt þjálfarateymi tekið við liðinu. Hjónin Ricardo Gonzáles Dávila - Richi - og Lidia Mirchandani voru ráðin til félagsins í sumar, en þau hafa þjálfað um árabil hjá Keflavík og Skallagrími. Richi er aðalþjálfari meistaraflokks karla og Lidia aðstoðarþjálfari.
Axel Arnarsson með boltann í æfingaleik gegn Hetti fyrr í haust. Nýr þjálfari liðsins, Richi Gonzáles, lengst til hægri. Mynd: Guðjón Andri Gylfason.
Akureyri.net heyrði hljóðið í Richi, innti hann eftir samsetningu liðsins og markmiðasetningu fyrir veturinn.
„Við erum mjög spennt að hefja keppni í deildinni. Við erum með langyngsta lið deildarinnar, en um leið mjög hæfileikaríkt lið með mikla orku,“ segir Richi. Hann segir að ákveðið hafi verið að fá hingað til Akureyrar nokkra af bestu ungu leikmönnum landsins og nefnir þá Axel Arnarsson, Eirík Frímann Jónsson og Jökul Ólafsson, sem allir eru 18 ára gamlir, svo og Finnboga Benónýsson og nú síðast Tý Óskar Pratiksson. Sjá nánari upplýsingar um leikmannahópinn neðst í fréttinni. Jökull lenti því miður í krossbandaslitum og verður því ekkert með Þórsliðinu í vetur. Þá hefur félagið samið við ítalskan leikmann, Pietro Ballarini, sem kemur til náms við HA um áramótin.
„Okkur langar til að byggja upp lið sem getur spilað saman í mörg ár á Akureyri og sem samsamar sig við samfélagið og með félagi sem á sér eins mikla sögu og Þór.“
Ungir og efnilegir íslenskir leikmenn hafa bæst í leikmannahóp Þórs, þeirra á meðal eru Axel Arnarsson, Eiríkur Jónsson og Finnbogi Benónýsson.
Erlendu leikmennirnir sem léku með Þór á síðasta tímabili, Andrius Globys og Tim Dalger, eru farnir, sem og nokkrir af þeim innlendu sem ýmist hafa farið annað eða hætt. Þar má nefna Skagfirðingana Reyni Barðdal Róbertsson og tvíburabræðurna Orra Má og Veigar Örn Svavarssyni, auk þess sem Baldur Örn Jóhannesson og Kolbeinn Fannar Gíslason, sem voru ekki með liðinu að fullu í fyrravetur eru ekki í leikmannahópnum núna í upphafi tímabils.
„Við héldum fjórum heimamönnum sem eru okkur mjög mikilvægir, með reynslu í deildinni og mikla ást á rauðu treyjunni, það eru Aggi, Smári, Andri og Páll Nóel,“ segir Richi og á þar við Arngrím Friðrik Alfreðsson, Smára Jónsson, Andra Má Jóhannesson og Pál Nóel Hjálmarsson. Þá eru tveir ungir sem stigu sín fyrstu skref með meistaraflokki í fyrra, þeir Dagur Vilhelm Ragnarsson og Pétur Áki Stefánsson einnig í leikmannahópi meistaraflokks áfram.
Nýir erlendir leikmenn í Þórsliðinu: Christian Caldwell, Luke Moyer og Francisco del Aquilla.
„Til að fullmanna liðið fáum við þrjá erlenda leikmenn, mjög góða leikmenn og góða liðsfélaga, sem munu færa okkur þau gæði sem við þurfum á að halda,“ segir Richi. Framherjinn Luke Moyer spilaði nokkra leiki með Skallagrími á síðasta tímabili og kemur því inn í hópinn með reynslu af því að spila hér á landi. Þá kemur Paco del Aguila frá því að spila í bestu deildum Spánar og bandarískur miðherji, Christian Caldwell, sem kemur úr NCAA-deildinni og er á sínum fyrsta atvinnumannasamningi. „Við ætlum að gefa allt okkar fyrir félagið og Akureyri og vonust til að fá stuðning fólksins svo við getum náð markmiðum okkar, að spila alla leiki eins og úrslitaleiki og reyna að ná eins langt og mögulegt er í deildinni,“ segir Richi Gonzáles um Þórsliðið og keppnistímabilið sem loksins er að hefjast í kvöld.
Ungir Þórsarar hafa verið að skrifa undir sína fyrstu samninga, eða munu gera það innan tíðar. Aron Geir Jónsson, Orri Páll Pálsson, Ísak Otri Finnsson og Pétur Júlíus Cariglia.
Leikmenn Þórs
- Andri Már Jóhannesson framherji
- Arngrímur Friðrik Alfreðsson bakvörður
- Aron Geir Jónsson framherji
- Axel Arnarsson bakvörður – frá Tindastóli
- Christian Caldwell miðherji – frá Bandaríkjunum
- Dagur Vilhelm Ragnarsson bakvörður
- Eiríkur Jónsson bakvörður – frá Skallagrími
- Finnbogi Benónýsson framherji – frá Keflavík
- Fransisco del Aquilla miðherji – frá Spáni
- Ísak Otri Finnsson bakvörður
- Jökull Ólafsson bakvörður – frá Keflavík
- Luke Moyer bakvörður – frá Skallagrími
- Orri Páll Pálsson bakvörður
- Páll Nóel Hjálmarsson framherji
- Pétur Áki Stefánsson framherji
- Pétur Júlíus Cariglia bakvörður
- Pietro Ballarini bakvörður – frá Ítalíu
- Smári Jónsson bakvörður
- Týr Óskar Pratiksson framherji – frá Stjörnunni