Fara í efni
Íþróttir

María skoraði – Þór vann fyrsta leikinn

Ásgerður Jana Ágústsdóttir til vinstri, Daníel Andri Halldórsson þjálfari Þórs, og Hrefna Ottósdóttir, þegar leikmennirnir sömdu við Þórsliðið í körfubolta í sumar. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.

María Catharina Ólafs­dótt­ir Gros er komin á blað hjá Celtic í Skotlandi; hún gerði fyrsta markið fyrir félagið þegar það burstaði Partick Thistle 6:0 í skosku úr­vals­deild­inni í knatt­spyrnu um helgina.

Þá hóf kvennalið Þórs í körfubolta keppni á Íslandsmóti á ný um helgina, eftir tveggja ára fjarveru. Liðið leikur í 1. deild, næst efstu deild Íslandsmótsins, og sigraði Ármann með 10 stiga mun, 78:68, í Reykjavík.

Stærsta akureyrska íþróttafrétt helgarinnar var að sjálfsögðu sigur KA/Þórs í bikarkeppninni í handbolta, sem fjallað var rækilega um hér á Akureyri.net. Að öðru leyti bar þetta til tíðinda:

  • Hrefna Ottósdóttir fór á kostum og skoraði 27 stig þegar Þórsarar hófu keppni í 1. deild um helgina með sigri á Ármanni. 

Þórsstelpurnar höfðu fjögurra stiga forskot eftir fyrsta leikhluta, 21:17 en Ármenningar voru komnir yfir í hálfleik, 41:37. Þórsarar nálguðust Reykvíkinga hægt og bítandi í þriðja leikhluta og tryggðu sér svo öruggan sigur þegar upp var staðið.

Hrefna var stigahæst með 27 stig stig, tók auk þess sjö fráköst og átti þrjár stoðsendingar.

Nánar hér um tölfræðina úr leiknum

  • María Catharina kom inná þegar staðan var orðin 4:0 fyrir Celtic gegn Partick Thistle og gerði fimmta markið á 84. mín­útu með góðu skoti utan úr teig í gegnum þvögu. 

Celtic er í öðru sæti skosku úrvalsdeild­ar­inn­ar með 13 stig þegar fimm umferðir eru búnar. Meistararnir í Glasgow City eru með jafn mörg stig en betri markatölu.

  • Karlalið Skauta­fé­lags Akureyrar varð að játa sig sigrað í fyrsta skipti í vetur þegar Skautafélag Reykja­vík­ur kom í heimsókn. SA hafði unnið tvo fyrstu leikina en SR vann á laugardaginn eftir frábæran leik. 

Jafnt var eftir hefðbundinn leiktíma, 6:6, ekki var skorað í framlangingu og því þurfti að grípa til vítakeppni. 

Kári Arn­ars­son og Axel Snær Orong­an, fyrrverandi leikmaður SA, komu SR í 2:0 í fyrsta leikhluta en SA jafnaði með mörk­um Orra Blön­dal og Jó­hanns Leifs­sonar.

Ní­els Haf­steins­son skoraði fyrir SR í öðrum leikhluta en það var svo í þriðja og síðasta leikhluta sem fjörið byrjaði fyrir alvöru!

Gunn­ar Ara­son jafnaði, 3:3, og Jó­hann kom SA í 4:3. Gunn­laug­ur Þor­steins­son jafnaði fyrir SR, 4:4, Andri Mika­els­son kom SA í 5:4 og Jó­hann gerði þriðja mark sitt þegar 10 mínútur voru. Staðan þá 6:4.

Gestirnir voru ekki á því að gefast upp, Kári minnkaði muninn og jafnaði síðan aðeins nokkrum andartökum fyrir lok venjulegs leiktíma. Það var svo Kári Arnarsson sem kórónaði góða frammistöðu með sigurmarki í vítakeppninni.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

  • KA tapaði fyrir HK í Mizuno deild karla í blaki, 3:1, í Kópavogi. 

Leik­ur­inn var jafn og spenn­andi. HK vann fyrstu tvær hrin­urn­ar, 25:22 og 25:21, KA þá næstu 25:16 en HK tryggði sigur með sigri í fjórðu hrinu, 25:21. Vann því leikinn 3:1.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.