Fara í efni
Íþróttir

Margrét skoraði úr víti og Þór/KA fékk stig

Margrét Árnadóttir tryggði Þór/KA jafntefli á Valsvellinum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór/KA gerði 1:1 jafntefli við Val í Reykjavík í kvöld, í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. Margrét Árnadóttir gerði mark Akureyrarliðsins úr vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks en Elín Metta Jensen hafði skorað fyrir Val í fyrri hálfleik. Þór/KA er komið með sjö stig eftir sjö leiki.

Elín Metta skoraði á 19. mínútu, eftir slæm mistök í liði gestanna. Hún komst inn í lélega sendingu og átti auðvelt með að skora. Strax á annarri mínútu seinni hálfleiks átti María Catharina Ólafsdóttir Gros skot að marki Vals, boltinn fór í hönd varnarmanns og víti var dæmt. Margrét skoraði af miklu öryggi og þar við sat.

„Ef ein­hvern tím­ann var tæki­færi til að koma á Hlíðar­enda og taka þrjú stig, þá var það í kvöld, en auðvitað virðum við stigið á móti góðu Valsliði,“ hefur mbl.is eftir Örnu Sif Ásgrímsdóttur, fyrirliða Þórs/KA, í kvöld. Blaðamaður mbl.is segir að gestirnir hafi verið síst lak­ari í leiknum.

„Við vor­um þétt­ar til baka og gáf­um fá færi á okk­ur. Ég hefði þó viljað sjá aðeins meira hug­rekki þegar við feng­um bolt­ann, það voru tæki­færi til þess. Val­ur er öfl­ugt lið sem press­ar vel og stund­um bjugg­umst við ekki við því að hafa tíma á bolt­an­um. Það vantaði smá hug­rekki,“ segir Arna Sif.

Þór/​KA var búið að tapa fjór­um af síðustu fimm leikj­um sín­um og sit­ur liðið rétt fyr­ir ofan fallsæti. „Við þurft­um á þessu stigi að halda og það von­andi gef­ur okk­ur smá sjálfs­traust fyr­ir næstu leiki,“ sagði Arna Sif í sam­tali við mbl.is.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.

Stórleikur kvöldsins var viðureign Selfoss og Breiðabliks. Fyrir kvöldið var lið Selfoss efst með 13 stig en Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu stórsigur á útivelli, 4:0. Smelltu hér til að sjá stöðuna í deildinni eftir leiki kvöldsins.