Fara í efni
Íþróttir

„Mætum tvíefld til leiks á morgun“

Galvaskur hópur KA/Þórs fyrir utan hótel liðsins í Elche. Ljósmyndir: Elvar Jónsteinsson.

Andri Snær Stefánsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara KA/Þórs í handbolta, er bjartsýnn fyrir seinni Evrópuleik liðsins gegn spænska liðinu CB Elche á morgun. Spánverjarnir unnu með fjórum mörkum í dag en þjálfarinn er sannfærður um að lið hans á góða möguleika á að komast áfram í keppninni.

„Við eigum fullt af hlutum inni, sérstaklega sóknarlega. Við gerðum okkur erfitt fyrir með því að brenna af svakalega mörgum dauðafærum,“ sagði Andri Snær við Akureyri.net í dag. „Elche spilar mjög agressífa vörn og framarlega, við náðum á köflum að leysa hana vel en það er alltaf erfitt þegar við fáum ekki mörkin úr færunum.“

Á morgun er nýr dagur!

„Varnarlega náðum við góðum tökum á þeim í seinni hálfleik en við eigum samt að gera betur á ákveðnum sviðum. Matea varði virkilega vel en við þurfum að nýta seinni bylgjuna í hraðaupphlaupum miklu betur en við gerðum í dag. Það er fullt af möguleikum – og nú er í raun bara hálfleikur. Á morgun er nýr dagur, við hugsum vel um endurheimt með Rögnu nuddara og mætum tvíefld til leiks á morgun. Það er engin spurning. Við skoðum leikinn saman á eftir og förum yfir okkar möguleika,“ sagði Andri og bætti við: „Við ætlum okkur svo sannarlega sigur á morgun.“

Umjöllun um leikinn í dag

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem teknar voru eftir leikinn í dag.