Lilja Maren og Valur Snær gefa ekkert eftir

Þegar þremur keppnisdögum af fjórum í Akureyrarmótinu í golfi er lokið í efstu flokkum eru Lilja Maren Jónsdóttir og Valur Snær Guðmundsson ennþá með forskot á aðra keppendur í meistaraflokkum kvenna og karla. Lilja Maren lék frábært golf í dag, kom inn á 72 höggum eða einu höggi yfir pari og er núna með tólf högga forystu á Köru Líf Antonsdóttur þegar einum hring er ólokið. Björk Hannesdóttir lék á 80 höggum í dag og Kara Líf á 82.
Valur Snær lék öruggt golf í dag, lauk leik á 73 höggum og er samtals á 5 yfir pari. Næstu menn náðu ekki að saxa á forskot hans í dag, Víðir Steinar Tómasson lék líka á 73 höggum og er enn 5 höggum á eftir Val. Ljóst er að keppnin verður hörð á lokadeginum á morgun og Valur Snær má ekki misstíga sig því fimm högga munur getur verið fljótur að gufa upp.
Valur Snær Guðmundsson er efstur í meistaraflokki fyrir síðasta keppnisdag. Hefur fimm högga forskot á Víði Steinar Tómasson. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Í 1. flokki kvenna lék Halla Berglind Arnarsdóttir best í dag, á 81 höggi, en forskot Guðríðar Sveinsdóttur er samt sem áður 12 högg fyrir lokadaginn. Guðríður lék á 84 höggum í dag og er ekki líkleg til að gefa höggstað á sér á endasprettinum.
Spennan er talsvert meiri í 1. flokki karla en þar hafa Starkaður Sigurðarson og Jónatan Magnússon slitið sig frá öðrum keppendum. Þeir léku báðir á 77 höggum í dag og Starkaður hefur tveggja högga forskot á Jónatan fyrir lokadaginn. Þeir eru á 24 og 26 höggum yfir pari og stefnir í hörkurimmu á morgun.
Starkaður Sigurðarson, til hægri, og Jónatan Magnússon á 18. flöt í dag. Þeir heyja harða keppni um sigur í 1. flokki. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Greint verður frá stöðu annarra flokka í Akureyrarmótinu í kvöld, þegar allir keppendur hafa lokið leik. Síðasti keppnisdagur hefst snemma í fyrramálið og reikna má með að meistaraflokkarnir fari af stað rétt upp úr hádegi, næst á eftir 1. flokki.
Fylgjast má með gangi mála í öllum flokkum hér.