Fara í efni
Íþróttir

Landsliðið vann einn leik en tapaði fjórum á HM

A-landslið kvenna í íshokkí sem tók þátt í A-riðli 2. deildar Heimsmeistaramótsins í liðinni viku. Mynd: ÍHÍ.

Skautafélag Akureyrar átti sex leikmenn í kvennalandsliði Íslands í íshokki í A-riðli 2. deildar Heimsmeistaramótsins á dögunum. Auk þeirra voru tíu brottfluttir Akureyringar í liðinu auk þjálfara og starfsfólks.

Íslenska liðið hafnaði í 5. og næstneðsta sæti riðilsins, vann einn leik, en tapaði fjórum. Sigurinn var gegn liði Belgíu, en liðið tapaði naumlega fyrir Tævan þar sem þær tævönsku skoruðu sigurmarkið á lokamínútu leiksins. 


Myndataka á morgungöngu. Myndin er af  Facebook-síðu kvennalandsliðsins

Sex leikmenn úr Skautafélagi Akureyrar voru í liðinu sem fyrr segir, auk nokkurra sem ýmist spila með Reykjavíkurliðunum eða erlendis og Akureyringar telja sig eiga nokkuð í. Þá er Jón Benedikt Gíslason frá Skautafélagi Akureyrar annar aðalþjálfara liðsins og Akureyringarnir Brynja Vignisdóttir og Hulda Sigurðardóttir báðar í starfsliði landsliðsins.

  • Ísland - Spánn 0-8
  • Ísland - Belgía 5-2 (Katrín, Silvía Rán, Amanda Ýr og Kolbrún)
  • Ísland - Kazakstan 2-7 (Katrín)
  • Ísland - Mexíkó 0-3
  • Ísland - Tævan 2-3 (Silvía Rán, Sunna)

Leikmenn SA í landsliðinu í þessu verkefni voru Aðalheiður Ragnarsdóttir, Amanda Ýr Bjarnadóttir, Anna Sonja Ágústsdóttir, Kolbrún Björnsdóttir, Magdalena Sulova og Silvía Rán Björgvinsdóttir. Silvía Rán skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar, Amanda Ýr skoraði eitt og átti eina stoðsendingu og Kolbrún skoraði eitt mark.

Sex leikmenn A-landsliðsins eru brottfluttir Akureyringar sem spila erlendis: Birta Helgudóttir (Odense IK), Gunnborg Jóhannsdóttir (Malmö Redhawks), Herborg Geirsdóttir (Rögle BK), Inga Rakel Aradóttir (Odensen IK), Katrín Björnsdóttir (Örebro HK) og Sunna Björgvinsdóttir (Södertälje SK). Katrín skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu, Sunna skoraði eitt og átti eina stoðsendingu, Gunnborg átti eina stoðsendingu og Inga Rakel eina.

Fjórar úr Reykjavíkurliðunum í landsliðshópnum eru einnig fyrrum leikmenn SA: Berglind Leifsdóttir (Fjölni), Kolbrún María Garðarsdóttir (Fjölni), Teresa Snorradóttir (Fjölni) og Saga Blöndal (SR). Kolbrún María átti þrjár stoðsendingar á mótinu og Teresa tvær.

Allar upplýsingar um mótið, úrslit, tölfræði og fleira má finna á mótssíðunni - sjá hér.