Fara í efni
Íþróttir

Kórdrengir sáu um sigursöngvana

Hart var tekist á í kvöld, m.a. við aðstæður eins og þessar þegar leikmenn biðu eftir boltanum í horni eða aukaspyrnu. Óvenjulega mikið var þá um stympingar og eltingaleiki! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar töpuðu 1:0 fyrir Kórdrengjum á heimavelli í kvöld í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þórsliðið hefur þar með fengið sjö stig úr sjö leikjum og er í áttunda sæti deildarinnar. Rýr uppskera það, en Kórdrengir eru hinsvegar í þriðja sæti með 14 stig, einu á eftir Grindavík. Framarar eru efstir, engir aðrir hafa unnið alla sjö leikina.

Leikurinn verður ekki lengi í minnum hafður því hann var lítið fyrir augað. Einhvern vegin lá í loftinu strax frá upphafsspyrnunni að sú yrði raunin; Kórdrengirnir voru ekki mættir til þess að fara sérstaklega fínt í hlutina, þeim finnst gaman að glíma hraustlega við andstæðinginn, eru flestir harðir í horn að taka og þótt þeir næðu sér engan vegin á strik í fyrri hálfleik náðu þeir að verjast vel.

Þórsarar geta mun betur en þeir sýndu í kvöld, og verða að gera miklu betur. Þeir héldu boltanum ágætlega á köflum en það dugði ekki til þess að skapa teljandi hættu við mark gestanna. Kórdrengir gerðu svo eina markið um að bil kortéri fyrir leikslok, eftir mikinn darraðardans í teignum. Aðeins tveimur mínútum seinna töldu Þórsarar sig hafa jafnað þegar Alvaro Montejo kom boltanum í markið eftir sendingu Jóhanns Helga Hannessonar en Spánverjinn var dæmdur rangstæður.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni.

76. mínúta - sigurmarkið! Þórir Rafn Þórisson, umkringdur Þórsurum, gerir eina mark leiksins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

78. mínúta - Alvaro Montejo kemur boltanum í mark gestanna, eftir sendingu Jóhanns Helga Hannessonar, sem sést í neðst til vinstri, en Alvaro var dæmdur rangstæður. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.