Fara í efni
Íþróttir

KA/Þór sigraði en er fallið úr keppni

Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir skoða umfjöllun um leikinn í gær í staðarblaðinu í morgun. Ljósmynd: Elvar Jónsteinsson.

KA/Þór sigraði CB Elche, 21:20, í síðari viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handbolta á Spáni í dag. Það dugði ekki til því Spánverjarnir unnu með fjögurra marka mun í gær. Íslands- og bikarmeistararnir eru því úr leik.

Heimaliðið byrjaði af miklum krafti og náði sex marka forskoti, 9:3, en Stelpurnar okkar spýttu þá í lófana og staðan í hálfleik var 13:10 fyrir Elche. Heimaliðið hafði forystu lengst af seinni hálfleiks, munurinn var fjögur mörk snemma hálfleiks en Íslands- og bikarmeistararnir komust smám saman nær og Arna Valgerður Erlingsdóttir jafnaði, 20:20, á 53. mínútu. Það var fyrsta mark Örnu í Evrópukeppni.

Eftir að Elche komst yfir á ný jafnaði Ásdís Guðmundsdóttir af línunni, 21:21, Matea Lonac varði svo víti á næst síðustu mínútu og Rakel Sara Elvarsdóttir gerði sigurmarkið.

Frækinn sigur í höfn en það reyndist því miður ekki nóg til að komast áfram. Góð frammistaða engu að síður að mörgu leyti, þótt liðið geti töluvert betur en það gerði í dag. Þess ber að geta að Rut Arnfjörð Jónsdóttir, sá frábæri leikmaður, gat ekki leikið með í dag vegna meiðsla sem hún varð fyrir undir lok leiks í gær. Með tilliti til þess er sigurinn enn meira afrek en ella. 

Mörk KA/Þórs: Unnur Ómarsdóttir 8, Ásdís Guðmundsdóttir 4/1, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Aldís Ásta Heimisdóttir 1, Arna Valgerður Erlingsdóttir 1, Martha Hermannsdóttir 1, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1.

Matea Lonac varði 11 skot, þar af 2 víti.