Fara í efni
Íþróttir

KA og Þór sýna beint frá öllum leikjum dagsins

Akureyrskir íþróttamenn verða víða á ferðinni í dag; fjórir boltaleikir eru á dagskránni, allir á heimavelli, en þrátt fyrir að áhorfendum sé meinaður aðgangur að íþróttahúsum um þessar mundir vegna sóttvarnarreglna þurfa áhugasamir ekki að örvænta: allir leikirnir verða í beinni útsendingu félaganna.

12.30 Þór – KA 2; Kjarnafæðismót karla í fótbolta í Boganum. Smellið HÉR til að horfa á leikinn í útsendingu Þórs. Fyrsti leikur beggja á mótinu og sérstaklega verður fróðlegt að sjá hvernig Orri Hjaltalín, nýr þjálfari Þórs, stillir liðinu upp því flísast hefur úr leikmannahópnum frá síðasta keppnistímabili. Sumir búnir að leggja skóna á hilluna en aðrir fjarverandi í námi.

15.00 Þór/KA – Fjarðarbyggð/Höttur/Leiknir; Kjarnafæðismót kvenna í fótbolta í Boganum. Smellið HÉR til að horfa á leikinn í útsendingu KA. Þetta er fyrsti leikur Þórs/KA síðan Íslandsmótið var flautað af í haust. Kvennalið taka nú þátt öðru sinni í Kjarnafæðismótinu og unnu stelpurnar í Þór/KA mótið í fyrra.

15.00 KA – Álftanes; Mizunodeildin í blaki kvenna í KA-heimilinu. Smellið HÉR til að horfa á leikinn í útsendingu KA. Gaman verður að sjá hvernig nýjasti liðsmaður KA, Spánverjinn Mireia Oroszo, smellur inn í hópinn.

18.00 Þór – Stjarnan; Domino‘s deild karla í körfubolta í Höllinni. Smellið HÉR til að horfa á leikinn í útsendingu Þórs. Stjarnan er eitt besta lið landsins, Garðabæjarliðið varð bikarmeistari í fyrra, og hefur unnið tvo fyrstu leikina á Íslandsmótinu en Þórsarar hins vegar tapað báðum.