Fara í efni
Íþróttir

KA byrjar gegn Leikni, Þór gegn Kórdrengjum

KA-maðurinn Þorri Mar Þórisson og Þórsarinn Elmar Þór Jónsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.
KA-maðurinn Þorri Mar Þórisson og Þórsarinn Elmar Þór Jónsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Fyrsti leikur KA í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu næsta sumar verður á heimavelli – væntanlega Dalvíkurvelli – miðvikudaginn 20. apríl, skv. drögum sem Knattspyrnusamband Íslands birti í dag. Í 2. umferð fara KA-menn svo til Vestmannaeyja og mæta ÍBV.

Hefðbundinn tvöfaldri umferð lýkur laugardaginn 17. september skv. drögunum. Þá leikur KA gegn Val í Reykjavík. Að því loknu fer fram úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn; að minnsta kosti er gengið út frá því að breyting í þá veru verði samþykkt á ársþingi KSÍ í febrúar. Þar leika sex efstu liðin einfalda umferð innbyrðis. Samskonar úrslitakeppni sex neðstu liðanna fer fram á sama tíma, þar sem fæst úr því skorið hvaða lið falla úr deildinni. Lokaumferð Íslandsmótsins er ráðgerð laugardaginn 29. október

Fyrsti leikur Þórsara í næst efstu deild Íslandsmótsins verður á heimavelli gegn Kórdrengjum 5. maí. Í 2. umferð leikur Þór gegn Fjölni í Reykjavík og í síðustu umferðinni, laugardaginn 17. september, fá Þórsarar lið Fylkis í heimsókn.