Fara í efni
Íþróttir

Jakob Franz þriðji Þórsarinn á Hlíðarenda

Þórsarinn Jakob Franz Páls­son hef­ur skrifað und­ir fjög­urra ára samn­ing við knatt­spyrnu­deild Vals. Hann kemur til Vals frá Venezia á Ítal­íu en lék sem lánsmaður með KR á síðasta tíma­bili.

Jakob Franz er tví­tug­ur varn­ar­maður sem fór frá Þór til Venezia í fe­brú­ar árið 2021 og lék í stutt­an tíma sem lánsmaður hjá Chi­asso í Sviss áður en hann kom til KR fyr­ir síðasta tíma­bil.

Alls lék Jakob Franz 25 leiki og skoraði eitt mark fyr­ir KR í Bestu deild­inni og hafði leikið 12 leiki fyr­ir Þór í 1. deild áður en hann hélt í at­vinnu­mennsku. Þá hef­ur hann leikið fyr­ir öll yngri landslið Íslands, alls 28 leiki, og er hluti af U21-árs landsliðinu sem stend­ur.

Jakob Franz verður þriðji Þórsarinn í herbúðum Valsara. Birkir Heimisson, sem hóf að leika með meistaraflokki Þórs árið 2016 en fór sama ár í atvinnumennsku til Hollands, samdi við Val haustið 2019. Í vetur gekk svo unglingalandsliðsmaðurinn Bjarni Guðjón Brynjólfsson úr Þór til liðs við Val. 

Vor­um ekki í nein­um vafa

„Jakob Franz er þannig leikmaður að þegar við sáum að það var mögu­leiki að fá hann vor­um við ekki í nein­um vafa. Hann er í grunn­inn bakvörður en get­ur leyst fleiri stöður t.d. í hjarta varn­ar­inn­ar og sem djúp­ur á miðjunni, ekk­ert ósvipað því hlut­verki sem Hlyn­ur Freyr sinnti hjá okk­ur á síðasta tíma­bili. Þrátt fyr­ir ung­an ald­ur er Jakob með heilt tíma­bil í efstu deild með KR þar sem hann spilaði frá­bær­lega. Jakob Franz gæti orðið lyk­ilmaður hjá okk­ur næstu árin,“ sagði Arn­ar Grét­ars­son, þjálf­ari Vals, í til­kynn­ingu frá fé­lag­inu.

Dug­leg­ur og kraft­mik­ill

„Um­hverfið hjá Val er þannig að ég trúi því að ég geti haldið áfram að bæta mig sem leik­mann og þró­ast í rétta átt. Hérna eru gæða leik­menn í öll­um stöðum bæði inni á vell­in­um og í þjálf­arat­eym­inu,“ sagði Jakob Franz í til­kynn­ing­unni.

„Mark­miðið er auðvitað alltaf að vinna og ég tel okk­ur klár­lega vera með hóp­inn í að gera vel í sum­ar og svo vilj­um við líka standa okk­ur vel í Evr­ópu. Fyr­ir mig per­sónu­lega þá vil ég bæta mig og verða betri með hverj­um leikn­um og gera allt sem ég get til þess að skila góðum úr­slit­um.“

Aðspurður hvernig hann myndi lýsa sér sem leik­manni sagði Jakob Franz:

„Ég er dug­leg­ur og kraft­mik­ill leikmaður sem gefst aldrei upp. Ég mun koma með mikla orku inn í liðið og á völl­inn. Ég er mjög spennt­ur fyr­ir kom­andi tím­um hjá Val.“