Fara í efni
Íþróttir

Jakob Franz semur við Venezia til þriggja ára

Jakob Franz í Baldvinsstofu í Hamri, þar sem hann var á æfingu. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Gengið hefur verið frá kaupum ítalska félagsins Venezia í Feneyjum á knattspyrnumanninum Jakobi Franz Pálssyni frá Þór. Hann samdi til þriggja ára við ítalska félagið.

Þór lánaði Jakob Franz til Venezia snemma árs, Ítalirnir höfðu forkaupsrétt og þurftu ekki að ákveða fyrr en í árslok hvort þeir nýttu sér þann rétt en unglingalandsliðsmaðurinn stóð sig það vel í vetur að þeim fannst ekki eftir neinu að bíða.

Jakob Franz, sem varð 18 ára í janúar, lék með liði 19 ára og yngri hjá Venezia í vetur, Primavera, eins og liðið kallast. Til stóð að hann æfði einnig með aðalliði félagsins en það reyndist ekki mögulegt vegna Covid-19. Ekki mátti blanda leikmannahópunum saman.

„Ég er ekkert eðlilega ánægður! Það hefur auðvitað verið draumur lengi að komast í atvinnumennsku og því er algjör snilld að búið sé að ganga frá þessu,“ sagði Jakob Franz í samtali við Akureyri.net. Hann hefur verið í fríi hér heima undanfarið.

„Þórsarar rosalega stoltir“

„Ég er mjög sáttur við þessa sölu, peningarnir koma sér vel og verða nýttir til að efla innviði knattspyrnudeildar,“ segir Jón Stefán Jónsson, íþróttastjóri Þórs við Akureyri.net, en hann sá um samskipti við ítalska félagið fyrir hönd Þórs. „Ef – ég vil reyndar segja þegar – Jakob Franz stendur sig vel í framtíðinni mun þetta skila félaginu meiru en samningurinn er líka feykilega mikilvægur fyrir unga og efnilega knattspyrnumenn á Norðurlandi, sem sjá að unglingastarfið hjá Þór er í hæsta gæðaflokki. Skref eins og þetta hjá Jakobi Franz sannar það. Við Þórsarar erum rosalega stoltir af stráknum og hlökkum mikið til að fylgjast með honum í framtíðinni.“

Hugsa ekki langt fram í tímann

Jakob Franz leikur sem hægri bakvörður á Ítalíu, eins og hann gerði yfirleitt hjá Þór, og með yngri landsliðunum. Þórsarinn á að baki sex leiki með U-16 liði Íslands, fimm með U-17 og lék á dögunum tvö þá fyrstu með U-19.

„Ég kann mjög vel við mig í þeirra stöðu. Við spilum 4-4-2, okkur bakvörðunum er stundum leyft að fara mikið fram, en ekki alltaf, það fer eftir mótherjunum.“ Jakobi finnst hann passa vel inn í leikstílinn á Ítalíu. „Það tók smá tíma að aðlagast því fótboltinn er allt öðru vísi en hér heima, við spilum mjög hratt og það er ekki mikill tíma til að hugsa þegar maður fær boltann; þarf helst að vera búinn að ákveða hvað maður gerir við boltann, áður en hann kemur.“

Hann segist ekki vita hvort hann verði látinn æfa með aðalliðinu strax í sumar. „Það kemur bara í ljós. Ég hugsa bara í stuttum skrefum, það þýðir ekki að hugsa langt inn í framtíðina, maður einbeitir sér bara að því að bæta sig.“

Jakob Franz á æfingu í Baldvinsstofu í Hamri. Fjær er Aron Birkir Stefánsson, markvörður Þórs, sem er meiddur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.