Fara í efni
Íþróttir

Jakob Franz frá Þór til Venezia á Ítalíu

Jakob Franz Pálsson með Þór í leik á Íslandsmótinu síðastliðið sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Jakob Franz Pálsson, bakvörðurinn ungi hjá Þór, hefur verið lánaður til Venezia á Ítalíu. Nánast er öruggt að ítalska félagið, sem er með bækistöðvar í Feneyjum og leikur í næst efstu deild, kaupi hann í framhaldinu, eftir því sem Akureyri.net kemst næst. Jakob Franz er nýorðinn 18 ára, hann lék fyrst í meistaraflokki Þórs 16 ára og á að baki 15 leiki í Íslandsmóti og bikarkeppni með í meistaraflokki. Þá hefur hann leikið 11 sinnum með yngri landsliðunum. Jakob mun leika með liði 19 ára og yngri fyrst í stað en æfa nokkra daga í viku með aðalliðinu.

„Draumur í langan tíma“

„Við vorum með lítið fjölskylduboð hér heima í gær, af því ég varð 18 ára um daginn. Allt í einu hringdi síminn hjá pabba, hann dró mig fljótlega inn í herbergi og sagði: Þú varst að fá tilboð frá Ítalíu. Ég var eiginlega í sjokki; varð orðlaus og það tók klukkutíma að jafna sig!“ sagði Jakob Franz við Akureyri.net áðan.

„Ég er auðvitað mjög spenntur fyrir þessu og fjölskyldan öll. Það hefur verið draumur minn í mjög langan tíma að sá svona tækifæri og ég mun bera mitt besta.“

Jakob Franz hafði ekki hugmynd um að neitt væri í gangi fyrr en Jón Stefán Jónsson, íþróttastjóri Þórs, hringdi í föður hans í gær. Þá var ekki langt síðan haft var samband við Þórs.

„Ég vissi að einhverjir voru að fylgjast með okkur í landsliðinu þegar við spiluðum í Krótaíu sumarið 2019 og í Hvíta Rússlandi á síðasta ári, en vissi ekki að eitthvert lið hefði sýnt mér áhuga fyrr en í gær.“

Tveir Íslendingar, Bjarki Steinn Bjarkason og Óttar Magnús Karlsson, eru í herbúðum Venezia. Þeir eru eldri en Jakob Franz og æfa með aðalliði félagsins.