Fara í efni
Íþróttir

Jafnt hjá KA/Þór í fyrri Evrópuleiknum

Lydia Gunnþórsdóttir var öryggið uppmálið og jafnaði metin fyrir KA/Þór með marki úr víti þegar hálf mínúta var eftir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Lydía Gunnþórsdóttir tryggði KA/Þór jafntefli, 20:20, með marki úr vítakasti þegar hálf mínúta var eftir af leiknum gegn Gjorche Petrov frá Norður-Makedóníu í KA-heimilinu í kvöld.

Þetta var fyrri viðureign liðanna í 2. umferð Evrópubikarkeppninnar í handbolta, þar sem á ýmsu gekk. Meðal annars meiddust tveir leikmenn KA/Þórs, fyrst Hrafnhildur Irma Jónsdóttir í fyrri hálfleik og síðar Anna Þyrí Halldórsdóttir snemma í þeim seinna. Báðar voru fluttar á brott í sjúkrabíl.

Hvorugt liðið lék vel í kvöld. Lið KA/Þórs er einkum skipað ungum leikmönnum þessa dagana, nokkrir héldu á brott í sumar eins og áður hefur komið fram, Rut Jónsdóttir er meidd og var ekki með í gær og Hulda Bryndís Tryggvadóttir er ólétt. Því er ekki undarlegt að spennan hafi verið mikil og ekki bætti úr skák þegar Hrafnhildur og Anna Þyrí meiddust.

Góð byrjun KA/Þórs kom þægilega á óvart, heimaliðið náði þriggja marka forskoti í tvígang á fyrsta korterinu en síðan snéru gestirnir leiknum sér í hag og vorum fjórum mörkum yfir í hálfleik, 11:7. Ekki mikið skorað enda gerðu leikmenn beggja liða aragrúa mistaka og það sama var upp á teningnum lengi vel í seinni hálfleik. En það mega Stelpurnar okkar eiga að þær neituðu að gefast upp þrátt fyrir mótlæti.

Mikill darraðardans var á lokasekúndunum. Eftir að Lydía jafnaði tók þjálfari Gjorce Petrov leikhlé og 20 sekúndum fyrir leikslok skaut einn leikmanna hans að marki, vörnin varði í horn og strax eftir hornkastið misstu gestirnir boltann klaufalega. Þá voru 10 sekúndur eftir, Andri Snær þjálfari KA/Þórs átti inni eitt leikhlé en boltinn var sendur fram völlinn í flýti, varnarmaður komst inn í sendinguna, lið gestanna sneri vörn í sókn og kom boltanum í mark KA/Þórs en dómararnir úrskurðuðu – sem betur fer – að leiktíminn hafi verið liðinn þegar boltinn fór yfir línuna.

Því er staðan jöfn fyrir seinni leikinn sem hefst klukkan 19.30 annað kvöld, laugardagskvöld.

Mörk KA/Þórs: Hildur Lilja Jónsdóttir 5, Unnur Ómarsdóttir 4, Lydía Gunnþórsdóttir 4 (3 víti), Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 3, Nathálía Soares Baliana 3 og Telma Lísa Elmarsdóttir 1.

Matea Lonac lék mjög vel í marki KA/Þórs í kvöld. Hún varði 18 skot, þar af 2 víti.

Hrafnhildur Irma handleggsbrotnaði