Fara í efni
Íþróttir

Íslandsmeistarar í íshokkí 15. árið í röð!

Ragnhildur Kjartansdóttir, fyrirliði Íslandsmeistaraliðs Skautafélags Akureyrar, eftir sigurinn í kv…
Ragnhildur Kjartansdóttir, fyrirliði Íslandsmeistaraliðs Skautafélags Akureyrar, eftir sigurinn í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Kvennalið Skautafélags Akureyrar varð Íslandsmeistari í íshokkí í kvöld þegar liðið sigraði Fjölni 5:0 á Akureyri í þriðja og síðasta úrslitaleik Íslandsmótsins. SA er þar með Íslandsmeistari 15. árið í röð í kvennaflokki. Félagið sendi fyrst kvennalið til keppni 2001 og það hefur orðið meistari hvert einasta ár, nema 2006.

Ekkert var skorað í fyrsta leikhluta í kvöld og spenna í leiknum, þrátt fyrir að Stelpurnar okkar hefðu augljóslega undirtökin. En eftir að ísinn var loks brotinn, þegar tæpar sjö mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta, var ljóst hvert stefndi.

Jónína Guðbjartsdóttir gerði fyrsta markið og Saga Sigurðardóttir bætti marki við áður en annar leikhluti var allur. Saga skoraði aftur snemma í þriðja leikhluta og undir lokin skoruðu þær Arndís Sigurðardóttir og Kolbrún Garðarsdóttir.

Smelltu hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.

Nánar á morgun

Sigri hrósandi meistarar renna sér sigurhringinn í kvöld. 

Íslandsmeistarar Skautafélags Akureyrar 2021. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.