Fara í efni
Íþróttir

Hulda Bryndís lengi frá keppni – sleit krossband

Hulda Bryndís Tryggvadóttir í leik með KA/Þór. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Handboltakonan Hulda Bryndís Tryggvadóttir, leikmaður KA/Þórs, sleit krossband í hné á dögunum og verður lengi frá æfingum og keppni.

Hulda Bryndís eignaðist barn fyrir 10 mánuðum en tók fram skóna í byrjun febrúar til þess að hjálpa liðinu, sem hefur verið í miklu basli í vetur. Fyrsti leikur Huldu eftir barnsburðinn var gegn ÍR í Reykjavík en ekki vildi betur til en svo að hún fór meidd af velli þegar langt var liðið á leikinn eftir að hafa fengið þungt högg á annað hnéð. Við rannsókn kom í ljós að krossband hafði slitnað.

Hulda Bryndís er annar leikmaður KA/Þórs sem slítur krossband í vetur; hornamaðurinn Rakel Sara Elvarsdóttir varð fyrir samskonar áfalli fyrr á leiktíðinni.

Þrátt fyrir áfallið er Hulda Bryndís hvergi nærri hætt. „Þetta er nýtt verkefni sem maður tæklar. Ég stefni á að koma til baka, hvort sem það verður í lok næsta tímabils eða á tímabilinu eftir það,“ segir hún við Akureyri.net. Hulda Bryndís er 27 ára.