Fara í efni
Íþróttir

Herslumuninn vantaði enn hjá Þórsstrákunum

Þórsarinn Jason Gigliotti var ekki kátur þegar dæmd var villa á hann í kvöld fyrir að verjast jafn vel og raun ber vitni í þetta skipti. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Enn vantaði herslumuninn hjá karlaliði Þórs í körfubolta þegar Fjölnir kom í heimsókn í gærkvöldi í 1. deild Íslandsmótsins. Strákarnir urðu að gera sér níu stiga tap að góðu, 100:91.

Fyrsti hluti var óhefðbundinn svo ekki sé meira sagt. Gestirnir gerðu nefnilega 10 fyrstu stigin; staðan var 10:0 þegar rúmar þrjár mínútur voru búnar. Þá hrukku heimamenn hins vegar í gang og náðu að jafna 18.18 en Fjölnir hafði eins stigs forskot að loknum fyrsta 10 mínútna leikhlutanum af fjórum, 22:21.

  • Skorið eftir leikhlutum: 21:22 – 27:28 – 48:50 23:30 – 20:20 – 91:100

Í öðrum leikhluta náðu gestirnir aftur góðri forystu en Þórsarar gyrtu sig í brók þegar á leið og voru aðeins tveimur stigum á eftir í hálfleik. Sama var upp á teningnum í þriðja leikhluta að því leyti að Fjölnismenn náðu nokkurra stiga forystu en að þessu sinni náðu Þórsarar ekki að minnka muninn og segja má að úrslitin hafi í raun ráðist á þessum kafla því bæði lið gerðu 20 stig í fjórða og síðasta leikhluta.

Harrison Butler gerði 26 stig fyrir Þór og Reynir Róbertsson 23, Jason Gigliotti skoraði 20 stig og tók hvorki meira né minna en 19 fráköst. Þórsarar náðu mjög góðum köflum í leiknum en þeir slæmu voru því miður of langir og því fór sem fór.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.