Fara í efni
Íþróttir

Heldur sigurganga Þórsara áfram?

Ohouo Guy Landry Edi, sem hér skorar gegn Njarðvíkingum í vetur, hefur reynst Þórsurum góður liðsauki. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Þórsarar, sem hafa verið á miklu flugi undanfarið, taka á móti ÍR-ingum í Domino‘s deild Íslandsmótsins í körfubolta í kvöld í Höllinni. Þór er nú í áttunda sæti deildarinnar með 12 stig en ÍR sæti ofar með 14.

Þór gerði sér lítið fyrir og sigraði Stjörnuna á útivelli í síðustu viku og lagði síðan botnlið Hauka, einnig fyrir sunnan. Liðið hefur leikið afar vel upp á síðkastið og sýnt að því eru flestir vegir færir. Spennandi verður að sjá hvort framhald verður á. Átta lið komst í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitillinn og eftir kvöldið eiga Þórsarar sjö leiki eftir í deildinni.

Leikurinn hefst klukkan 18.15. Líkt og á síðasta heimaleik verða leyfðir 200 áhorfendur, allir miðar verða skráðir á nafn, kennitölu og símanúmer. Forsala var í Hamri þar sem seldust hátt í 100 miðar. Héðan af er einfaldast að kaupa miða í gegnum miðasöluappið stubb, smellið hér til að fara þangað inn. Miðinn kostar 2.000 krónur.

Rétt er að benda þeim sem ekki komast á leikinn að Þórsarar sýna hann beint á netinu – smellið hér til að horfa á leikinn. Það kostar 1.000 krónur.