Fara í efni
Íþróttir

Handbolti í hundrað ár – MYNDBAND

Handboltakappinn Alfreð Gíslason var kjörinn Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna 1989. Hann er eini Akureyringurinn sem hlotið hefur nafnbótina. Með Alfreð á myndinni er Sigríður Sigurðardóttir sem kjörin var Íþróttamaður ársins 1964 - fyrst kvenna og fyrst handboltamanna.

Í ár er öld liðin frá því handboltinn kom til Íslands, að því er segir í tilkynningu frá Handknattleikssambandi Íslands. „Það eru margar skemmtilegar vörður á þessari 100 ára leið og þau voru ófá brosin sem það kallaði fram að fara í gegnum gamalt myndefni tengt íþróttinni til að setja saman auglýsingu í tilefni þessa stóra áfanga,“ segir þar.

Svo skemmtilega vill til að fyrstu sekúndurnar í auglýsingu HSÍ eru úr Skemmunni á Akureyri; þar má m.a. sjá Halldór Rafnsson taka víti en Þorleifur Ananíasson og Stefán Tryggvason fylgjast með. Í húsinu er nú Ferro Zink með starfsemi, en Íþróttaskemman var lengi eina æfinga- og keppnishús íþróttamanna auk þess sem börn í Oddeyrarskóla og Glerárskóla stunduðu þar leikfimi.

„Sum augnablik gleymast aldrei, eins og þegar kvennalandsliðið braut blað í íþróttasögunni til að vinna titil í hópíþróttum árið 1964. Sama ár varð svo Sigríður Sigurðardóttir, landsliðskona í handbolta, fyrsta konan til að ná kjöri sem Íþróttamaður ársins. Við munum svo auðvitað öll eftir HM í handbolta sem var haldið á Íslandi 1995 og silfrið sem var öllu gulli betra á Ólympíuleikunum 2008,“ í tilkynningu HSÍ.

„Fjöldi barna og ungmenna hafa prófað sig áfram í íþróttinni á þessum langa tíma, óháð árangri trúum við að handboltinn og andinn innan íþróttarinnar fylgi þeim áfram út í lífið. Hreyfingin á svo sannarlega traustasta lið stuðningsmanna sem hægt er að finna og við hlökkum til að fylgja ykkur öllum næstu hundrað árin. Því eins og segir í nýju auglýsingunni okkar eru við rétt að byrja!“

Auglýsinguna sem HSÍ lét framleiða af þessum tímamótum má sjá hér.