Fara í efni
Íþróttir

Grátlegt tap Þórsara í æsispennandi leik

Þórsarinn Kristján Páll Steinsson fagnar eftir að hann varði skot í leiknum í kvöld. Kristján var frábær; varði 22 skot, en það dugði ekki til sigurs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar voru grátlega nálægt því að komast í átta liða úrslit bikarkeppninnar í handbolta í kvöld þegar þeir fengu Selfyssinga í heimsókn. Gestirnir unnu með eins marks mun, 27:26, og gerðu sigurmarkið þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiknum.

Þórsarar höfðu tækifæri til að tryggja sér sigurinn, að minnsta kosti að koma sér í kjörstöðu,  því þeir voru í sókn þegar staðan var 26:26 en misstu boltann klaufalega þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum. Selfyssingar tóku leikhlé, skipulögðu lokasóknina og áætlun þeirra gekk fullkomlega upp.

Jón Ólafur Þorsteinsson brýst af harðfylgi í gegnum vörn Selfyssinga í kvöld. Hann gerði fimm mörk í leiknum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Leikurinn var þrælskemmtilegur og spennandi frá upphafi, nema hvað Selfyssingar náðu góðum spretti undir lok fyrri hálfleiks og komust fjórum mörkum yfir. Staðan 16:12 fyrir þá þegar leikurinn var hálfnaður.

Það tók Þórsara ekki nema um það bil 10 mínútur að jafna, 19:19, og síðan var allt í járnum. Staðan jöfn eða eins marks munur á annan hvorn veginn. Jafnt var á öllum tölum upp í 26:26.

Mörk Þórs: Aron Hólm Kristjánsson 6, Jón Ólafur Þorsteinsson 5, Þormar Sigurðsson 4, Brynjar Hólm Grétarsson 4, Viðar Ernir Reimarsson 4, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2, Friðrik Svavarsson 1.

Varin skot: Kristján Páll Steinsson 22 (44,9%).

Smellið hér til að sjá alla tölfræði leiksins

Spennan í hámarki! Aron Hólm Kristjánsson gerir sjötta mark sitt og 26. mark Þórs í kvöld - það síðasta í leiknum - af vítalínunni þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson