Golf: Undanúrslitin síðdegis í dag

Kvennasveit GA vann sinn riðil í 1. deild Íslandsmótsins í golfi með fullu húsi stiga. Sveitin lagði sveit Golfklúbbs Selfoss með þremur vinningum gegn tveimur í lokaumferð riðlakeppninnar. Strax eftir hádegi tekur undanúrslitaviðureignin við en andstæðingurinn verður sveit Golfklúbbsins Keilis (GK). Ásamt GA fóru núverandi Íslandsmeistarar Mosfellinga áfram í undanúrslit úr riðlinum og mæta þar sveit Golfklúbbs Reykjavíkur. Undanúrslitin hefjast kl. 14:10 á Jaðri og um að gera að mæta og styðja stelpurnar.
Þær Arna Rún Oddsdóttir og Kara Líf Antonsdóttir töpuðu sinni fyrstu viðureign í mótinu í fjórmenningnum gegn Selfyssingum. Amanda Guðrún Bjarnadóttir tapaði í tvímenningi en þær Andrea Ýr Ásmundsdóttir, Björk Hannesdóttir og Lilja Maren Jónsdóttir unnu sína tvímenningsleiki.
Amanda Guðrún Bjarnadóttir býr sig undir að slá inn á 10. flöt í gær. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Karlasveit GA leikur einnig í undanúrslitum í 1. deild karla á Leirdalsvelli eftir hádegið, þrátt fyrir tap fyrir Golfklúbbi Garðabæjar og Kópavogs (GKG) í lokaviðureign riðlakeppninnar. Andstæðingurinn í undanúrslitum verður sigurvegari hins riðilsins, harðsnúin sveit GR.
Sveit GKG er ógnarsterk og hafði unnið báða sína leiki 5:0 fram að viðureigninni við GA. Heiðar Davíð liðsstjóri gerði talsverðar breytingar á liðsskipan fyrir þennan leik og lék sjálfur í fjórmenningi með Val Snæ Guðmundssyni. Þeir gerðu jafntefli í sínum leik og voru raunar hársbreidd frá sigri. Tumi Hrafn Kúld og Mikael Máni Sigurðsson léku saman í hinum fjórmenningnum og töpuðu. Þá töpuðu þeir Eyþór Hrafnar Ketilsson, Óskar Páll Valsson og Víðir Steinar Tómasson tvímenningsleikjunum. Lokastaðan 4,5:0,5 tap en bæði liðin fara í undanúrslit.
Sigurliðin úr undanúrslitaviðureignunum leika síðan til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í fyrramálið og tapliðin spila um bronsið.