Golf: Frábær byrjun hjá Bryndísi Evu

Fleiri ungir kylfingar úr GA en Veigar Heiðarsson eru að standa sig vel í verkefnum erlendis. Bryndís Eva Ágústsdóttir er ein fjögurra kylfinga sem valdir voru fyrir Íslands hönd til að taka þátt í European Young Masters í Frakklandi, sem er mót fyrir 16 ára og yngri. Fyrsti hringurinn hjá stúlkunum er að baki og Bryndís Eva er í 9. sæti af 58 stúlkum, lék hringinn á 72 höggum, eða pari vallarins. Bryndís er aðeins þremur höggum frá toppsætinu. Glæsileg byrjun hjá Bryndísi Evu, sem gat ekki verið með kvennasveit GA á Íslandsmóti golfklúbba á sama tíma, vegna þessa verkefnis.
Keppt er í einstaklings- og liðakeppni á þessu móti. Leiknir eru þrír keppnishringir á þremur keppnisdögum þar sem að keppt er í höggleik. Í liðakeppninni telja þrjú bestu skorin af fjórum hjá hverju liði á hverjum hring. Auk Bryndísar Evu keppir Ásdís Rafnar Steingrímsdóttir í stúlknaflokki fyrir Íslands hönd en hún lék fyrsta hringinn á 80 höggum. Fyrsti hringurinn hjá piltunum er nýhafinn, þannig að ekki er ljóst hvernig staðan er í sveitakeppninni.
Hægt er að fylgjast með gangi mála í mótinu hér.