Fara í efni
Íþróttir

Golf: Báðar sveitir GA komnar í undanúrslit

Tumi Hrafn Kúld á Akureyrarmótinu á dögunum - Andrea Ýr Ásmundsdóttir á Jaðarsvelli í dag, þar sem sólstrandarveður var fyrir hádegi en aðeins öðruvísi veður þegar á leið ... Myndir: Skapti Hallgrímsson

Vaskar sveitir Golfklúbbs Akureyrar halda áfram að gera það gott á Íslandsmóti golfklúbba. Eins og fram kom í frétt fyrr í dag unnu bæði kvenna- og karlasveitirnar góða 3:2 sigra á sterkum andstæðingum í morgun og nú síðdegis unnu bæði lið sínar viðureignir í annarri umferð. Fyrir lokaumferðina í riðlakeppninni, sem fram fer í fyrramálið, eru báðar sveitir búnar að tryggja sig inn í undanúrslitin - sem er frábær árangur.

Kvennasveitin atti kappi við sveit Golfklúbbs Garðabæjar og Kópavogs (GKG) á Jaðarsvelli núna síðdegis. Lokatölur urðu 4:1 GA-konum í hag en reyndar voru flestar viðureignirnar frekar jafnar. Þær norðlensku náðu að landa sigri í öllum jöfnum viðureignum og það réði úrslitum. Eins og í 1. umferð léku Arna Rún Oddsdóttir og Kara Líf Antonsdóttir saman í fjórmenningi og unnu sína viðureign. Það sama gerðu Andrea Ýr Ásmundsdóttir, Björk Hannesdóttir og Lilja Maren Jónsdóttir í sínum tvímenningsleikjum en Amanda Guðrún Bjarnadóttir tapaði sinni viðureign.

Þeim leiddist ekki að hala inn vinningum í dag. Arna Rún Oddsdóttir og Kara Líf Antonsdóttir, sem léku saman í fjórmenningi, og Björk Hannesdóttir og Lilja Maren Jónsdóttir í tvímenningi. Myndir: Skapti Hallgrímsson.

GA-stelpurnar eru efstar í sínum riðli og búnar að tryggja sig í undanúrslit. Þær leika gegn Golfklúbbi Selfoss í lokaumferð riðlakeppninnar í fyrramálið og eftir hádegi verður undanúrslitaviðureignin. Hver andstæðingurinn verður í þeirri viðureign kemur í ljós þegar riðlakeppninni er lokið. Eins og fram hefur komið fer keppni í 1. deild kvenna fram á Jaðarsvelli og frábært tækifæri fyrir allt áhugafólk að kíkja á völlinn, fylgjast með bestu kvenkylfingum landsins og styðja okkar lið.

Mikael Máni Sigurðsson og Víðir Steinar Tómasson léku saman í fjórmenningi í báðum umferðum dagsins og höfðu sigur á andstæðingum sínum í blálokin. Myndir: Skapti Hallgrímsson.

Karlasveit GA lagði Vestmanneyinga

Karlasveitin mætti sveit Golfklúbbs Vestmannaeyja í 2. umferðinni og vann líka öruggan 4:1 sigur. En eins og hjá stelpunum réði úrslitum að jafnar viðureignir féllu okkar megin. Þeir Mikael Máni Sigurðsson og Víðir Steinar Tómasson lönduðu sigri í sínum fjórmenningi með því að vinna síðustu tvær holurnar. Tumi Hrafn Kúld lenti snemma þremur holum undir í sínum tvímenningsleik en nagaði niður forskot andstæðingsins smám saman og náði að jafna leikinn á 12. holu. Svo náði hann forystunni með því að vinna 14. holu og hélt því forskoti út leikinn.

Óskar Páll Valsson og Valur Snær Guðmundsson töpuðu sínum fjórmenningi en Veigar Heiðarsson og Eyþór Hrafnar Ketilsson unnu örugga sigra í sínum tvímenningsleikjum. Og eins og kvennasveitin þá eru strákarnir búnir að tryggja sæti í undanúrslitunum þótt ein umferð sé eftir í riðlinum. Í lokaumferðinni í fyrramálið leika þeir gegn geysisterkri sveit GKG, sem hefur unnið báðar sínar viðureignir með fullu húsi stiga.

Sannarlega frábær árangur hjá báðum sveitum og ljóst að þær munu báðar leika um verðlaunasæti á þessu Íslandsmóti.