Góð hraðaupphlaup og KA vann KR – MYNDIR

KA sigraði KR 4:2 á heimavelli á sunnudaginn í 23. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu – í fyrsta leik beggja liða í fimm leikja „framlengingu“ liðanna sex sem voru í neðri hlutanum, þegar deildinni var skipt í tvennt.
KA-menn eru efstir í neðri hlutanum og ættu að vera búnir að koma sér úr fallhættu með sigrinum. KR-ingar eru hins vegar í slæmum málum; þeir eru næst neðstir með 24 stig, stigi á eftir Akurnesingum. Afturelding er neðst með 22 stig. Tvö lið falla úr deildinni.
KR SKORAR, KA JAFNAR
Aron Sigurðarson fyrirliði KR kom gestunum yfir með glæsilegu skot yst úr vítateignum eftir gott samspil KR-inga. Þetta var á 13. mínútu. en tæpum 10 mín. síðar var staðan orðin jöfn á ný. Eftir hornspyrnu KA barst boltinn út fyrir vítateig þar sem Ingimar Torbjörnsson Stöle þrumaði viðstöðulaust til baka, af rúmlega 20 metra færi. Boltinn small í stönginni, fór þaðan í Arnar Frey Ólafsson markvörð og i netið. Ingimar fær þar af leiðandi markið ekki skráð á sig – því miður, heldur telst það sjálfsmark Arnars Freys.
Myndir: Ármann Hinrik
_ _ _
„STUBBUR“ MEIDDUR AF VELLI
Markvörður KA, Steinþór Már Auðunsson, sem gjarnan er kallaður „Stubbur“ í knattspyrnuheiminum, meiddist á hné og fór af velli eftir rúman hálftíma. William Tønning, sem kom við sögu í sex leikjum fyrr í sumar vegna meiðsla Steinþórs, leysti kollega sinn af hólmi í þetta sinn sem áður.
Myndir: Ármann Hinrik og Skapti Hallgrímsson
_ _ _
ARON AFTUR
Aron Sigurðarson náði forystu fyrir KR á ný undir lok fyrri hálfleiksins. Fékk boltann ysta í vítateignum hægra megin og skoraði með lúmsku skoti; vippaði boltanum glæsilega í fjærhornið, yfir Tønning markvörð sem var full framarlega.
Mynd: Ármann Hinrik
_ _ _
BIRNIR JAFNAR
Ekki voru liðnar nema um það bil þrjár mínútur af seinni hálfleik þegar KA jafnaði, 2:2. Markið kom eftir sannkallað hraðaupphlaup; KR-ingar voru í sókn, KA-menn náðu af þeim boltanum og brunuðu af stað; Birnir Snær Ingason lék með boltann fram að miðju, sendi út á vinstri kant á Jóan Símun Edmundsson og sá færeyski átti hárnákvæma sendingu inn á miðjan vítateig þegar Birnir var kominn þangað. Þar voru einnig tveir KR-ingar en varnartilburðir þeirra voru ekki til fyrirmyndar; KA-maðurinn gerði hins vegar afar vel, tók boltann niður og skoraði af stuttu færi.
Myndir: Ármann Hinrik og Skapti Hallgrímsson
_ _ _
ENGINN TRÚÐI EIGIN AUGUM!
Þriðja mark KA-manna kom einnig eftir hraða sókn. Þeir náðu boltanum í eigin vítateig og skyndilega var Birnir á harðaspretti fyrir innan vörn KR. Armin Cosic og Atli Sigurjónsson hlupu hann uppi og sá fyrrnefndi renndi sér fyrir KA-manninn í sömu mund og hann skaut rétt utan vítateigs. Gunnar Oddur Hafliðason blés í flautu sína, stakk hendinni í vasann og allir urðu forviða þegar hann lyfti spjaldi; KR-ingar vegna þess að hann skyldi veifa spjaldi yfirleitt og KA-menn sakir þess að gula spjaldið fór á loft en ekki það rauða – að Cosic fengi „bara“ áminningu en væri ekki vísað af velli.
Myndir: Skapti Hallgrímsson
Mynd: Ármann Hinrik
EKKI ÉG HELDUR
Sumir áhorfenda voru líka undrandi, þar á meðal Ívar Örn Árnason fyrirliði KA sem var í leikbanni. En hann var fljótur að taka gleði sína á ný ...
BIRNIR KEMUR KA YFIR
Já, Ívar og aðrir KA-menn tóku gleði sína og ný og gleymdu líklega ákvörðun dómarans um litaval. KA skoraði nefnilega eftir aukaspyrnuna; Hallgrímur Mar Steingrímsson skaut að marki, Arnar Freyr varði en Birnir Snær Ingason var fyrstur á vettvan og skoraði. KR-ingu töldu hann rangstæðan en svo var ekki.
Myndir: Ármann Hinrik
_ _ _
200. LEIKURINN OG FYRSTA MARKIÐ Í SEX ÁR
KA-menn slógu KA-inga enn út af laginu með hraðaupphlaupi á síðustu andartökum leiksins. Enn einu sinni náði einn heimamanna boltanum af KR-ingi, nú í eigin vítateig, hann sendi á Dag Inga Valsson sem lék á KR-ing við miðlínu vallarins og skömmu síðar lá boltinn í KR-markinu. Það var Andri Fannar Stefánsson sem skoraði og fór vel á því. Þetta var 200. leikur Andra í efstu deild og markið það fyrsta sem hann skorar í sex ár.
- Nánar var sagt frá markinu og ferli Andra Fannars á akureyri.net á sunnudaginn. Smellið hér til að sjá umfjöllunina.
Myndir: Ármann Hinrik, Skapti Hallgrímsson og Rakel Hinriksdóttir