Fara í efni
Íþróttir

Fyrsta markið í 6 ár – í 200. leiknum í efstu deild

Andri Fannar Stefánsson fagnar eftir að hann skoraði gegn KR í dag. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA-maðurinn Andri Fannar Stefánsson tók í dag þátt í 200. leiknum í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu þegar KA vann KR 4:2 í fyrsta leik liðanna í neðri hluta Bestu deildarinnar. Til að kóróna sögulegan dag gulltryggði Andri Fannar sigur KA með laglegu marki eftir hraða sókn þegar fjórar mínútur voru liðnar af sjö mín. uppbótartíma. Það er fyrsta mark þessa gamalreynda leikmanns í sex ár.

Andri Fannar hefur aldrei verið í þannig hlutverki að sérstakar kröfur séu gerðar til þess að hann skori. Enda var markið í dag aðeins það þriðja sem hann skorar í efstu deild gert þrjú mörk í þessum 200 leikjum í efstu deild.

MARK ANDRA Í DAG
Markið í dag gerði Andri Fannar eftir glæsilegan undirbúning Dags Inga Valssonar sem fékk boltann við miðlínu, komst framhjá varnarmanni og tók á rás fram hægri kantinn og inn í vítateig. Dagur var yfirvegaður og þegar tveir varnarmenn sóttu að honum renndi hann boltanum út í miðjan vítateig þar sem Andri Fannar var mættur og sendi boltann af miklu öryggi framhjá Arnari Frey Ólafssyni markverði og í hægra hornið.

  • Fyrsta mark Andra Fannars í efstu deild var með Val í 4:2 sigri á ÍA að Hlíðarenda 28. júní 2015. Hann geri fyrsta mark leiksins.
  • Annað mark Andra Fannars í efstu deild var með KA 28. september 2019. Hann gerði þá þriðja markið í 4:2 sigri á Fylki á Akureyrarvelli.
  • Andri Fannar skoraði í fyrsta sinn fyrir meistaraflokk á Íslandsmóti þegar KA vann Leikni R. 6:0 í næst efstu deild, 22. júní 2008 á Akureyrarvelli.
  • Í dag voru 67 mín. liðnar af leiknum þegar Andri Fannar kom inn á fyrir Bjarna Aðalsteinsson. Hann hafði aðeins einu sinni áður komið við sögu í deildinni í sumar, fyrra skiptið var einnig gegn KR, þegar liðin gerðu 2:2 jafntefli á Akureyri í fyrstu umferðinni 6. apríl í vor.
  • Andri Fannar, sem er 34 ára, steig fyrstu skrefin í meistaraflokki með KA fyrir 17 árum, sumarið 2008, þá 17 ára. Hann lék með KA til 2010 en var svo á mála hjá Val frá 2011 til 2018, nema hvað hann lék með Leikni hluta úr sumri 2014. Andri Fannar kom til KA á ný 2019.

Tölfræði um Andra Fannar á vef KSÍ