Fara í efni
Íþróttir

Markmaður og framherji frá Bandaríkjunum

Tvær úr Vesturheimi til Akureyrar. Framherjinn Erin Fleury, til vinstri, og markvörðurinn Allie Augur.

Þór/KA hefur samið við tvær bandarískar knattspyrnukonur um að leika með liðinu á komandi leiktíð, markvörðinn Allie Augur og framherjann Erin Fleury. Greint er frá samningunum á vef Þórs/KA í dag.

  • Markvörðurinn Allie Augur hóf háskólaferil sinn í fótboltanum í Boston College þar sem hún spilaði í tvö ár, samtals 29 leiki, áður en hún skipti yfir í Georgetown University í Washington DC þar sem hún spilaði 53 leiki. Hún kemur upphaflega frá Northford í Connecticut-ríki í Bandaríkjunum.
  • Framherjinn Erin Fleury er frá Manchester í New Hampshire þar sem hún hóf knattspyrnuferilinn. Hún spilaði með háskólaliði Syracuse-háskólans í New York 2021-2023. Eftir það samdi hún við Florida State-háskólann, mjög öflugan íþróttaskóla, þar sem hún spilaði sýningarleiki vorið 2025 áður en hún ákvað að skipta yfir í Auburn University í Texas þar sem hún spilaði með Auburn Tigers.

Spennt fyrir áskoruninni

„Fyrstu viðbrögð voru spenna blönduð með forvitni,“ segir markvörðurinn, Allie Auger, á vef Þórs/KA, spurð um væntanlega komu sína til Íslands og í Bestu deildina. „Marga leikmenn dreymir um að spila í atvinnumennsku erlendis og mér fannst Ísland vera einstakt og merkilegt tækifæri. Ég var spennt fyrir áskoruninni við að laga mig að nýju landi, nýjum leikstíl og nýju umhverfi. Þegar ég fékk meiri upplýsingar um deildina og knattspyrnuna á Íslandi varð spennan bara meiri,“ segir Allie.

„Aðalþjálfari hennar í háskóla, Dave Nolan, var í lykilhlutverki við að koma á sambandi við Þór/KA að hennar sögn,“ segir á vef Þórs/KA um markmanninn. „Hann hafði trú á því að þetta félag myndi henta mér vel og hjálpaði við að koma á samtölum okkar á milli, sem mjög fljótt varð að mjög spennandi tækifæri,“ segir Allie um tilurð þess að hún komst í samband við Þór/KA. Hún kveðst leggja mikið á sig sem leikmaður, vera keppnismanneskja sem leggur stolt í verkefnin, spili af aga fyrir varnarleik liðsins og vinni í smáatriðunum sem hjálpa liðinu við að ná árangri.

Einstakt tækifæri

Erin Fleury kveðst hafa orðið mjög spennt og glöð þegar þetta tækifæri kom til. „Þegar tækifærið til að spila á Íslandi bauðst fylltist ég spennu og gleði. Möguleikinn á að spila í efstu deild á Íslandi og vaxa bæði sem leikmaður og manneskja erlendis ýtti mjög við mér. Þetta er einstakt tækifæri til að takast á við áskoranir á hærra stigi á sama tíma og ég tek nýrri menningu og umhverfi opnum örmum,“ segir hún, spurð um væntanlega komu sína til Íslands.

Á vef Þórs/KA segir: Erin er líkamlega sterkur leikmaður og kveðst vera mikil keppnismanneskja með óþrjótandi vilja til að vinna. „Ég legg stolt mitt í baráttu og vilja til að gera hvað sem þarf til að liðið nái árangri. Ég hef sterka sýn í sóknarleiknum sem gerir mér kleift að skapa tækifæri byrir bæði mig sjálfa og liðsfélagana,“ segir Erin Fleury.

Vefur Þórs/KA