Fara í efni
Íþróttir

Frábært mark Hallgríms, Þór tapaði, Þór/KA vann

Ásgeir Sigurgeirsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson skoruðu fyrir KA í gær. Ljósmyndir: Skapti Hall…
Ásgeir Sigurgeirsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson skoruðu fyrir KA í gær. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

KA sigraði HK 2:1 í Lengjubikarkeppninni í fótbolta í Boganum í gær og er liðið þar með komið með sex stig eftir þrjá leiki í riðli 1 í A-deildinni. Bjarni Gunnarsson kom HK yfir strax á sjöttu mínútu en eftir liðlega hálftíma jafnaði Hallgrímur Mar Steingrímsson fyrir KA, með stórglæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Hann skrúfaði boltann yfir varnarvegginn og í hornið. Það var svo Ásgeir Sigurgeirsson sem tryggði KA sigur; skoraði þegar aðeins rúmar þrjár mínútur voru eftir af hefðbundunum leiktíma. Hallgrímur tók hornspyrnu frá vinstri og Ásgeir sneiddi boltann laglega í fjærhornið. KA og HK eru í 2.-3. sæti með sex stig eftir þrjá leiki, en Valur er í efsta sæti með sex stig eftir tvo leiki.

  • Næsti leikur: Afturelding - KA, laugardaginn 6. mars klukkan 15.00 í Mosfellsbæ.

Þórsarar tóku á móti KR-ingum í Boganum í gærkvöldi, í riðli 2 í Lengjubikarkeppninni. Gestirnir sigruðu 4:0 og eru komnir með sjö stig eftir þrjár umferðir en Þórsarar eru enn án stiga. Pálm Rafn Pálmsson gerði fyrsta markið úr víti á 37. mín og staðan var 1:0 í hálfleik. Guðjón Baldvinsson skoraði á 72. mín. og svo virtist sem munurinn yrði tvö mörk í leikslok, en svo fór að gestirnir skoruðu í tvígang í blálokin, fyrst Óskar Örn Hauksson og loks Oddur Ingi Bjarnason.

  • Næsti leikur: FH - Þór, laugardaginn 6. mars klukkan 15.00 í Hafnarfirði.

Stelpurnar í Þór/KA voru líka á ferðinni í gær og unnu öruggan sigur á B-deildarliði FH, 4:2, í Lengjubikarkeppninni. Leikið var í Hafnarfirði. María Catharina Ólafsdóttir Gros gerði tvö mörk í leiknum og þær Hulda Ósk Jónsdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir sitt markið hvor. Þór KA er efsti í riðli 2 í A-deild með sex stig að loknum tveimur leikjum. Breiðablik og Fylkir eru með fjögur stig hvort félag, einnig eftir tvo leiki.

  • Næsti leikur: Þór/KA - Breiðablik, sunnudaginn 7. mars í Boganum klukkan 15.00.