Fara í efni
Íþróttir

Glæsilegur sigur KA/Þórs á Stjörnunni

Matea Lonac, markvörður KA/Þórs, lék mjög vel gegn Stjörnunni í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Stelpurnar í KA/Þór unnu óvæntan en glæsilegan sigur, 21:18, á Stjörnunni í dag í Olís deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Stjarnan var í öðru sæti deildarinnar þegar hún kom í heimsókn í KA-heimilið, hafði unnið sjö leiki en aðeins tapað tveimur en á brattann hefur verið að sækja hjá hinu unga liði KA/Þórs. Eftir sigurinn er Akureyrarliðið komið með átta stig að loknum 11 leikjum. Hefur nú unnið fjóra leiki en tapað sjö.

Landsliðskonurnar Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Unnur Ómarsdóttir, sem hafa verið frá vegna meiðsla undanfarið, léku báðar með í dag. Það kom á óvart því  ekki var talið að þær yrðu leikfærarar fyrr en á nýju ári en nærvera þeirra skipti sköpum. Rut var markahæst með sjö mörk og Unnur gerði fimm. Þá lék Matea Lonac mjög vel í markinu.

Mörk KA/Þórs: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 7/3, Unnur Ómarsdóttir 5, Nathalia Soares Baliana 4, Júlía Björnsdóttir 2, Lydía Gunnþórsdóttir 2, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1. Varin skot: Matea Lonac 14 (43,8%)

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.

Unnur Ómarsdóttir og Rut Arnfjörð Jónsdóttir léku báðar óvænt með KA/Þór á ný í dag og komu mjög við sögu. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson