Fara í efni
Íþróttir

Geir Kristinn og Sigurpáll taka við Þórsliðinu

Frágengið! Frá vinstri: Sigurpáll Árni Aðalsteinsson, Árni Rúnar Jóhannesson, formaður handknattleiksdeildar Þórs, og Geir Kristinn Aðalsteinsson í Hamri í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Geir Kristinn Aðalsteinsson hefur verið ráðinn þjálfari handboltaliðs Þórs út þetta keppnistímabil. Bróðir hans, Sigurpáll Árni, verður aðstoðarþjálfari Geirs. Bræðurnar leysa af hólmi Stevce Alusovski sem var sagt upp störfum á dögunum. 

„Það var ekki á stefnuskránni að fara út í þjálfun, ég get sagt það fyrir hönd okkar beggja. En það var hart sótt að okkur, og okkur rann einfaldlega blóðið til skyldunnar,“ sagði Geir Kristinn við Akureyri.net eftir að þeir bræður skrifuðu undir samning við handknattleiksdeildina í félagsheimilinu Hamri nú eftir hádegið. 

„Við höfum mjög mikinn áhuga á handbolta, tölum mikið íþróttina og höfum gjarnan allt aðrar skoðanir en þjálfarar liðanna hverju sinni!“ sagði Geir Kristinn og hló. „Nú reynir á okkur. Við höfum svipaðar skoðanir þannig að samstarfið verður örugglega mjög gott.“

Bræðurnir hafa fylgst með Þórsliðinu í vetur. „Við höfum séð alla heimaleikina og verkefnið núna verður að efla heimastrákana með aðstoð útlendinganna sem eru í liðinu. Það er fullt af efnivið hjá okkur sem ég hlakka mikið til að vinna með,“ sagði Geir Kristinn.

Bræðurnir eru af mikilli Þórsfjölskyldu og léku báðir með meistaraflokksliði félagsins í handbolta á árum áður. Sigurpáll Árni þjálfaði svo Þórsliðið frá 2001 til 2005 og Geir Kristinn þjálfaði 2. flokk Akureyrar - handbolta frá 2008 til 2010.

Geir Kristinn hefur verið formaður Íþróttabandalags Akureyrar í nokkur ár en stígur til hliðar á þeim vettvangi til vors. Með því vill hann koma í veg fyrir mögulega hagsmunaárekstra. Stjórn ÍBA samþykkti ósk Geirs þar að lútandi og mun Birna Baldursdóttur, varaformaður ÍBA, gegna embætti formanns á meðan.

Þórsliðið leikur í næst efstu deild Íslandsmótsins, Grill66 deildinni, og er þar um miðja deild.

Næsti leikur Þórsara er gegn Selfyssingum á heimavelli á föstudagskvöldið. Halldór Örn Tryggvason hefur síðustu daga búið liðið undir þann leik en bræðurnir mæta á æfingu í kvöld. Halldór stjórnar liðinu þó gegn Selfyssingum en fyrsti leikur bræðranna við stjórnvölinn verður á útivelli gegn ungmennaliði Vals annan laugardag.