Fara í efni
Íþróttir

GA opnar nokkrar brautir á Jaðarsvelli

Nóvembergolf! Sævar Gunnarsson, til vinstri, og Þorsteinn Friðriksson rétt áður en þeir hófu leik á Jaðarsvelli um miðjan nóvember í haust. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Kylfingar geta tekið gleði sína, segir í tilkynningu á vef Golfklúbbs Akureyrar (GA) í dag og þar er varla ofmælt. Forráðamenn GA hafa nefnilega ákveðið að opna nokkrar brautir á Jaðarsvelli fyrir kylfingum. Telst það sannarlega markvert á þessum árstíma.

„Eins og glöggir GA félagar hafa tekið eftir hefur veðurfar verið með besta móti undanfarna daga og vikur. Völlurinn hefur tekið því vel og höfum við því ákveðið að opna holur 1-4 og 7-9 fyrir félagsmenn okkar,“ segir á vef golfklúbbsins í dag.

„Við notum vetrargrín og aðeins eru ein teigmerki á hverri braut, á rauðum teigum, nema á 9. holu þar sem teigurinn er inn á brautinni.

Við biðjum að sjálfsögðu félagsmenn um að ganga vel um völlinn og huga vel að því að hann er blautur og viðkvæmur á þessum árstíma.

Endilega kíkið upp á völl og njótið þess að spila golf í góðu veðri.“