Fara í efni
Íþróttir

Fyrstu heimaleikir KA/Þórs í Evrópukeppni

Rut Jónsdóttir er yfirburðamaður í liði KA/Þórs. Hún lék ekki með í tapinu gegn Stjörnunni í vikunni vegna meiðsla en verður vonandi klár í slaginn í kvöld. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

KA/Þór tekur á móti HC Gjorche Petrov frá Norður-Makedóníu í Evrópukeppni kvenna í handabolta í kvöld og á morgun. Leikirnir fara fram í KA-heimilinu og hefjast báðir klukkan 19.30. 

Þetta eru söguleg tímamót því KA/Þór hefur ekki áður spilað Evrópuleiki á heimavelli. Liðið komst áfram úr fyrstu umferð í fyrravetur með því að sigra meistara Kósóvó, KHF Istogu, en tapaði svo fyrir CB Elche á Spáni og fóru allir fjórir leikirnir fram ytra.

Ástæða er til að hvetja sem allra flesta til að mæta í KA-heimilið og styðja við bakið á Stelpunum okkar. Liðið er ungt, margir af reyndustu leikmönnunum héldu á brott í sumar þannig að stuðningur skiptir jafnvel enn meira máli en endranær. 

Eftir því sem Akureyri.net kemst næst er HC Gjorche Petrov sterkt lið. Það hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína í deildinni heima fyrir með gríðarlegum yfirburðum og því verður spennandi að sjá hvernig leikmönnum KA/Þórs gengur að standa upp í hárinu á gestunum.