Fyrsti leikur Þórs í efstu deild síðan 2021

Handboltavertíðin er að fara af stað og nýliðar Þórs í efstu deild karla leika sinn fyrsta leik í kvöld kl. 19 þegar ÍR kemur í heimsókn í Höllina. Þórsarar hafa ekki leikið í efstu deild síðan 2021 og mikill hugur er í liðinu fyrir komandi leiktíð. Í nýbirtri spá fyrirliða og þjálfara liðanna er Þórsurum spáð 11. og næstneðsta sæti deildarinnar en Daniel Birkelund þjálfari tekur hæfilega mikið mark á spádómum af þessu tagi.
„Ég pæli eiginlega ekki mikið í spám. Spádómar eru bara það, spádómar. En ég býst við að þetta sé raunhæft mat á liði sem er nýliði í deildinni og hefur ekki verið stórtækt á leikmannamarkaðinum,“ sagði Norðmaðurinn Birkelund í samtali við akureyri.net. Hann er sannfærður um að lið hans geti veitt öllum hinum liðunum í deildinni verðuga keppni á góðum degi. Lykilatriðið sé að ná að vinna jöfnu leikina og ef það gangi vel þá geti Þórsarar verið í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. En hann tekur einnig fram að auðvitað geti brugðið til beggja vona. „Þó held ég líka að við séum eitt af liðunum sem gæti fallið. Það kæmi mér ekki á óvart ef munurinn á milli þess að enda í 12. sæti og svo í 6.–7.–8. sæti verði ekki mjög mikill. Þá snýst þetta allt um það hverjir vinna erfiðu leikina, hverjir ná í stig þrátt fyrir að eiga slæman dag og hverjir lenda í meiðslavandræðum,“ sagði Daniel.
Þórður Tandri Ágústsson, Hafþór Vignisson, Igor Chiseliov og Oddur Gretarsson ásamt Birkelund þjálfara á æfingunni í gær. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Ekki hræddir við neinn andstæðing
Daniel Birkelund er reynslumikill þjálfari sem þjálfaði síðast Lemvig-Thyborøn í næstefstu deildinni í Danmörku, áður en hann samdi við Þór í vor. Aðspurður segir hann of snemmt fyrir sig að meta íslensku deildina og hvernig Þór standi í samanburði við önnur lið. „Ég held að íslenska deildin sé bæði áhugaverð og sterk deild. Það eru augljóslega lið sem eru betri en önnur, en þetta er ein af þeim deildum þar sem enginn er 100% öruggur um sigur í leik. Hver sem er getur unnið hvern sem er. Hvar við stöndum í þessu öllu saman kemur í ljós á næstu vikum og mánuðum. En við munum mæta tilbúnir til leiks og ég sé enga ástæðu til að við eigum að vera hræddir við neinn andstæðing þegar mótið hefst,“ sagði Daniel Birkelund.
Fimm nýir leikmenn
Eins og Daniel minntist á hafa Þórsarar ekki verið stórtækir á leikmannamarkaðinum. Bræðurnir Hafþór Ingi og Hákon Ingi Halldórssynir sneru heim í Þór eftir námsdvöl erlendis og Patrekur Þorbergsson markvörður kom frá HK. Þá hefur liðið samið við tvo reynslumikla erlenda leikmenn; þá Nikola Radovanovic markvörð og Igor Chiseliov sem er vinstri skytta. Eftir því sem akureyri.net kemst næst hafa Þórsarar aðeins misst þá Leó Friðriksson, sem gekk til liðs við KA á ný, og markvörðinn Kristján Pál Steinsson sem flutti úr landi vegna atvinnu.
Daniel er sáttur við undirbúningstímabilið, æfingar hafi byrjað snemma og sex æfingaleikir verið spilaðir í ágúst. Liðið sé því á góðum stað í upphafi móts. „Og ég vona að við getum unnið vel á tímabilinu, bætt okkur sem lið, þannig að ef við komumst í úrslitakeppnina verðum við tilbúnir að láta eitthvað gerast,“ sagði Daniel Birkelund þjálfari Þórs.
Daniel Birkelund fylgist grannt með lærisveinum sínum á æfingunni í gær. Mynd: Skapti Hallgrímsson