Fyrsta jafnteflið og Þór/KA í 7. sæti

Þór/KA og Fram skildu jöfn í lokaumferð neðri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu þegar liðin mættust í Boganum í gærkvöld. Fram komst yfir í fyrri hálfleik, en Karen María Sigurgeirsdóttir jafnaði í 1-1 í þeim seinni. Þetta er fyrsta og eina jafnteflið sem Þór/KA gerir í leikjum Bestu deildarinnar í sumar, í 21. leik liðsins í deildinni.
Fyrir leikinn var ljóst að þessi tvö lið myndu enda í 7. og 8. sæti Bestu deildarinnar og nægði Þór/KA jafntefli til að halda 7. sætinu, sem er efsta sæti neðri hluta deildarinnar eftir tvískiptingu. Bæði lið reyndu þó að ná sigrinum og fengu til þess færi, en markverðir liðanna gripu vel inn í á mikilvægum augnablikum.
- 0-1 - Lily Anna Farkas (35. mínútu)
Fram náði forystunni þegar leikmenn liðsins voru skyndilega þrjár á móti tveimur varnarmönnum eftir markspyrnu frá eigin marki. Lily Anna Farkas fékk boltann vinstra megin í vítateignum og skoraði af öryggi í fjærhornið. Gestirnir höfðu eins marks forystu í leikhléi.
Lily Anna Farkas búin að afgreiða boltann og Jessica Berlin reynir að komast fyrir, en tókst ekki. Mynd: Ármann Hinrik.
- 1-1 - Karen María Sigurgeirsdóttir (58. mínútu)
Jöfnunarmarkið kom þegar tæpur stundarfjórðungur var liðinn af seinni hálfleik. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir vann þá boltann af harðfylgi í baráttu við tvo eða þrjá leikmenn gestanna, kom honum áfram til Amalíu Árnadóttur sem gerði vel í að halda boltanum og sendi svo áfram á Karen Maríu Sigurgeirsdóttur. Amalía hljóp áfram inn í teiginn, tilbúin að fá boltann að nýju, en um leið skapaðist pláss fyrir Karen Maríu til að láta vaða á markið vel fyrir utan vítateig. Glæsilegt mark eins og fleiri mörk Karenar Maríu í sumar.
Amalía Árnadóttir með boltann á miðjunni, áður en hún sendir áfram til Karenar Maríu sem síðan lét vaða á markið. Mynd: Ármann Hinrik.
Karen María Sigurgeirsdóttir finnur sér góðan stað vel fyrir utan vítateig og leggur boltann fyrir sig áður en hún lét vaða á markið. Mynd: Ármann Hinrik.
Henríetta Ágústsdóttir og Angela Mary Helgadóttir fagna markinu með Karen Maríu. Mynd: Ármann Hinrik.
Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki og niðurstaðan því jafntefli. Þór/KA endaði sem áður sagði í 7. sæti deildarinnar, sama sæti og liðið var í þegar deildinni var tvískipt. Þegar upp var staðið hafði Þór/KA unnið níu leiki, gert eitt jafntefli og tapað 11 leikjum. Fram kom svo í humátt á eftir með 26 stig í 8. sætinu, en Tindastóll og FHL, sem mætast í lokaleiknum á laugardag, falla niður í Lengjudeildina.
Lokastaðan í neðri hluta Bestu deildarinnar
Næstum dramatískur sigur
Fyrri leik þessara liða í Boganum lauk með dramatísku sigurmarki gestanna á lokamínútum leiksins og munaði litlu að Þór/KA tækist að svara í sömu mynt á lokasekúndunum í gær.
Henríetta Ágústsdóttir fór þá upp miðjuna, sendi inn í teiginn vinstra megin á Ellie Moreno, sem renndi boltanum fyrir markið. Þar reyndi Emelía Ósk Krüger skot af markteigslínu sem fór í varnarmann, Ísey Ragnarsdóttir fékk þá boltann rétt utan markteigs, einnig í varnarmann. Boltinn barst þá út í teiginn þar sem Henríetta átti skot en markvörður Fram varði frábærlega og um leið og varnarmenn Fram hreinsuðu frá flautaði dómarinn til leiksloka.
- Ekki 2-1, en þrjú skot að marki á innan við fimm sekúndum
Kamile Elise Pickett kemst fyrir skot Emelíu Óskar Krüger. Mynd: Ármann Hinrik.
Ashley Brown Orkus ver skot Henríettu Ágútsdóttur á lokasekúndu viðbótartíma leiksins. Strax á eftir var flautað til leiksloka. Mynd: Ármann Hinrik.