Fara í efni
Íþróttir

Frábær undirbúningur fyrir dómarana og liðin

Þrír bræður tóku þátt í fyrsta leik mótsins, tveir með KA og sá þriðji með Þór. Frá vinstri: Bjarni, Davíð og Hákon Aðalsteinssynir. Myndin birtist á Facebook síðu Knattspyrnudómarafélags Norðurlands.

Íslenskir knattspyrnumenn eru komnir á ferðina eftir tiltölulega stutt vetrarfrí. HM styttist í annan endann og þá gleðjast án efa margir yfir því að grasrótin stendur til boða á ný: Kjarnafæðimótið er hafið enn eitt árið.

Knattspyrnudómarafélag Norðurlands (KDN) stendur fyrir mótinu og hefur gert á þessum árstíma síðan 2004.

„Mótið er mikilvægur liður í starfi félagsins. Við lítum á það sem frábæran undirbúning fyrir dómara á svæðinu og ekki síður fyrir liðin að koma sér í form fyrir komandi átök í sínum deildum,“ segir Bergvin Fannar Gunnarsson talsmaður dómarafélagsins við Akureyri.net.

Mótið í ár er spilað í þremur deildum. Tveir riðlar eru í A-deild karla, einn í B-deild karla og loks er ein kvennadeild. Þátt taka 13 karlalið og fimm lið leika í kvennadeildinni þetta árið. Haldið er utan um mótið á vef KSÍ eins og hér má sjá.

Bergvin Fannar segir liðin taka mótið nokkuð alvarlega. „Í opnunarleik mótsins stillti KA til dæmis upp mjög sterku liði leikmanna sem spiluðu marga leiki í Bestu deildinni í sumar þar sem KA varð í 2. sæti,“ segir hann.

Þessir leikir eru búnir á mótinu:

KA - Þór 2, 6:0

KFA - KA 2, 1:3

FHL - Þór/KA2, 0:11

Tveir leikir eru á dagskrá í dag, miðvikudag, báðir í Boganum:

18.00 KA 2 – Þór

20.00 Samherjar - KA 3

Áfram verður leikið um helgina en síðasti leikur fyrir jól er 21. desember. Áfram verður svo haldið af fullum krafti í janúar en mótið stendur allt þar til Lengjubikarinn hefst í febrúar.