Fara í efni
Íþróttir

Fótboltinn á fullu - handboltinn hitnar

Knattspyrnulið Akureyrar eiga mikilvæga leiki fram undan í vikunni og eru ýmist að berjast við að komast aftur á sigurbraut, sæti í efstu deild eða halda sér í efstu deild. Haustið nálgast og þá fara vetrarliðin á stjá, undirbúningstímabilið komið í gang og í handboltanum eru átta leikir á dagskrá á fimmtudag, föstudag og laugardag. 

ÞRIÐJUDAGUR 12. ÁGÚST - fótbolti

Þór/KA er að berjast fyrir því að komast aftur á sigurbraut, en liðið hefur tapað báðum leikjum sínum eftir EM-hléið í sumar. Þór/KA situr þó enn í 4. sæti Bestu deildarinnar með 18 stig úr 12 leikjum. Valur náði að komast upp að hlið Þórs/KA með sigri í Boganum í 11. umferðinni, en hefur leikið einum leik meira, auk þess sem Þór/KA hefur betri markatölu.

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu, 13. umferð
    Kaplakrikavöllur í Hafnarfirði kl. 18
    FH - Þór/KA

Þór/KA sækir FH heim í Hafnarfjörðinn, en fram undan hjá Hafnarfjarðarliðinu er bikarúrslitaleikur á laugardag. Eflaust vilja FH-ingar keyra upp stemninguna fyrir laugardaginn með sigri á Þór/KA, en svo er líka spurning hvort bikarúrslitaleikurinn hefur áhrif á spennustigið eða hugarfarið í leiknum gegn Þór/KA. FH sló Þór/KA einmitt úr úr bikarkeppninni með 3-1 sigri í Boganum í júní.

FH vann seiglusigur á FHL eystra á laugardag, en tveimur dögum áður mátti Þór/KA þola 1-2 tap heima fyrir Val. Fyrri leik liðanna í deildinni í sumar lauk með 2-0 sigri FH í Boganum. 

MIÐVIKUDAGUR 13. ÁGÚST - fótbolti

Næsta verkefni karlaliðs Þórs í knattspyrnunni er í nágrenninu, útileikur gegn liði Völsungs á Húsavík á miðvikudag. Fyrri leik liðanna lauk með 3-1 sigri Völsungs í Boganum í byrjun júní.

  • Lengjudeild karla í knattspyrnu, 17. umferð
    PCC-völlurinn á Húsavík kl. 18
    Völsungur - Þór

Þórsarar náðu að landa sigri með marki þegar örfáar mínútur voru eftir af útileik liðsins gegn Fylki í 16. umferð Lengjudeildarinnar. Önnur úrslit í umferðinni þýddu að Þór fór upp um eitt sæti og er nú í 3. sæti deildarinnar með 30 stig úr 16 leikjum. HK er einnig með 30 stig, en lakari markamun en Þór. Fyrir ofan eru ÍR með 33 stig og Njarðvík með 34 stig.

Völsungur er í nokkuð góðri stöðu í neðri hluta deildarinnar. Lengjudeildin hefur spilast þannig að sex efstu liðin hafa slitið sig nokkuð frá þeim neðri, en Völsungur er efst í neðri hlutanum, er í 7. sæti með 19 stig úr 16 leikjum, fimm stigum á eftir liði Keflavíkur.

FIMMTUDAGUR 14. ÁGÚST - handbolti

Undirbúningstímabilið í handboltanum komið á fullt og væntanlega hugur í stuðningsmönnum handboltaliðanna þriggja á Akureyri, sem eru nú eftir nokkurra ára bið öll í efstu deild, karlalið KA og Þórs í Olísdeild karla og sameiginlegt lið KA/Þórs í Olísdeild kvenna. Ásamt KA/Þór mæta lið Gróttu, ÍBV og Stjörnunnar til leiks. Frítt er inn á alla leikina, bæði í KG sendibílamótinu og á æfingaleiki karlaliðanna.

Liður í undirbúningi kvennaliðsins er KG sendibílamótið sem spilað verður í KA-heimilinu 14.-16. ágúst.

  • KG sendibílamótið í handknattleik kvenna
    KA-heimilið kl. 19:30
    KA/Þór - Grótta
    KA-heimilið kl. 20:30
    ÍBV - Stjarnan

Hraðmót í karlaflokki á vegum KA hefur iðulega verið liður í þeim undirbúningi, en engin liða koma norður að þessu sinni. Þess í stað mætast KA og Þór í tveimur æfingaleikjum í KA-heimilinu. Sá fyrri verður á fimmtudag. 

  • Æfingaleikur í handknattleik karla
    KA-heimilið kl. 17:30
    KA - Þór

FÖSTUDAGUR 15. ÁGÚST - handbolti

Önnur umferð KG sendibílamótsins fer fram í KA-heimilinu á föstudag. 

  • KG sendibílamótið í handknattleik kvenna
    KA-heimilið kl. 17
    KA/Þór - ÍBV
    KA-heimilið kl. 18:45
    Grótta - Stjarnan

LAUGARDAGUR 16. ÁGÚST - handbolti

Á laugardag er spiluð þriðja og síðasta umferðin í KG sendibílamótinu, sem og seinni æfingaleikur karlaliða KA og Þórs.

  • KG sendibílamótið í handknattleik kvenna
    KA-heimilið kl. 11:30
    Grótta - ÍBV
    KA heimilið kl. 13:00
    KA/Þór - Stjarnan
  • Æfingaleikur í handknattleik karla
    KA-heimilið kl. 14:30
    KA - Þór

SUNNUDAGUR 17. ÁGÚST - fótbolti

Það verður stutt á milli stórleikja hjá karlaliði Þórs í knattspyrnu því strax næsta sunnudag fara Þórsarar í Breiðholtið og mæta ÍR í mikilvægum leik í toppbaráttunni. Leikurinn er í 18. umferð deildarinnar, en þegar þetta er skrifað er 17. umferðin einnig fram undan núna í vikunni. Að loknum 16 umferðum er ÍR í 2. sæti deildarinnar með 33 stig og Þór í 3. sætinu með 30 stig. 

  • Lengjudeild karla í knattspyrnu, 18. umferð
    AutoCentre-völlurinn í Breiðholti kl. 16
    ÍR - Þór

Snemma í júní mættust þessi lið í fyrri umferð deildarinnar í Boganum á Akureyri og skildu þá jöfn, 1-1. Eins og áður hefur komið fram vann Þór leik sinn gegn Fylki í 16. umferðinni, en ÍR gerði hins vegar 3-3 jafntefli við Fjölni, sem hefur strögglað í sumar og er í botnbaráttu deildarinnar.

- - -

Karlalið KA í knattspyrnunni náði sér í dýrmæt stig í 18. umferðinni þegar liðið vann 1-0 heimasigur gegn ÍBV með marki þegar örfáar mínútur voru eftir af leiknum. Með sigrinum fór KA upp í 7. sætið, er með 22 stig úr 17 leikjum og hefur unnið þrjá af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni. 

  • Besta deild karla í knattspyrnu, 19. umferð
    Varmárvöllur í Mosfellsbæ kl. 17
    Afturelding - KA

KA fer í Mosfellsbæinn á sunnudag og mætir Aftureldingu, sem er á sínu fyrsta tímabili í efstu deild. Þegar þetta er skrifað og birt á Afturelding eftir að spila leik sinn í 18. umferð deildarinnar, en liðið sækir KR heim í kvöld (mánudag). Með sigri í þeim leik getur Afturelding komist stigi upp fyrir KA, en Mosfellingar eru nú í 9. sæti deildarinnar með 20 stig úr 17 leikjum. KA vann fyrri leik liðanna í deildinni í sumar, 1-0, á Akureyri í maí.