Fótbolti, körfubolti og blak á dagskrá i dag
KA-menn hefja leik í Lengjubikarkeppni karla í knattspyrnu í dag þegar þeir taka á móti KR-ingum. Toppslagur í næst efstu deild kvenna í körfubolta er á dagskrá þegar Þórsarar fá lið Aþenu í heimsókn, Þór/KA 2 mætir Tindastóli i Kjarnafæðimóti kvenna í knattspyrnu og karlalið KA í blaki leikur í Hveragerði.
Lengjubikarbikarkeppni karla í knattspyrnu hófst nýlega og KA-menn hefja leik í dag. Þórsarar áttu að mæta Völsungum á Húsavík en leiknum hefur verið frestað og verður á Akureyri 18. febrúar.
- Lengjubikar karla í knattspyrnu, A-deild
Greifavöllurinn kl. 14:30
KA - KR
KA er í riðli 3 í A-deild ásamt Grindavík, KR, Njarðvík, Víkingi og ÍR. Heimaleikir liðsins verða gegn KR, Víkingi og Grindavík.
- - -
Keppni í kvennadeild Kjarnafæðimótsins í knattspyrnu er langt komin og ljóst að Þór/KA-liðin tvö enda í tveimur efstu sætunum. Þór/KA2 mætir liði Tindastóls í Boganum í dag.
- Kjarnafæðimótið í knattspyrnu, kvennadeild
Boginn kl. 13:30
Tindastóll - Þór/KA2
- - -
Kvennalið Þórs í körfuknattleik er enn ósigrað í 1. deildinni og má gera ráð fyrir að næsti leikur liðsins ráði nokkuð miklu um framhaldið. Þór er á toppi 1. deildarinnar með 11 sigra, en Aþena hefur unnið níu leiki og tapað einum, heimaleik sínum gegn Þór. Þessi lið mætast í Íþróttahöllinni í dag í toppslag deildarinnar.
- 1. deild kvenna í körfuknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18
Þór - Aþena
- - -
Karlalið KA í blaki á nokkuð skondna helgi fram undan. KA sækir Hamar heim í Hveragerði og mætast liðin tvisvar, fyrst í dag og svo aftur á morgun, sunnudag. Laugardagsleikurinn er öllu mikilvægari því hann er í átta liða úrslitum bikarkeppninnar, Kjörísbikarsins, og sigurliðið fer því áfram í úrslitahelgina í bikarnum. Óhætt er að reikna með hörkuviðureign milli tveggja sterkra liða, en Hvergerðingar eru efstir í deildarkeppninni.
- Kjörísbikar karla í blaki, átta liða úrslit
Íþróttahúsið í Hveragerði kl. 18
Hamar - KA