Fótbolti í Boganum – handbolti syðra

Tvö Akureyrarlið verða í eldlínunni í kvöld. Heimaleikur gegn Fram hjá Þór/KA í neðri hluta Bestu deildarinnar í knattspyrnu, síðasti leikur liðsins á tímabilinu, og útileikur hjá Þór í Olísdeild karla í handknattleik, FH-ingar sóttir heim í Kaplakrikann.
Þór/KA lýkur keppni á Íslandsmótinu, Bestu deildinni, þetta árið þegar liðið tekur á móti Fram í Boganum í kvöld. Bæði lið hafa tryggt sæti sitt í Bestu deildinni á næsta tímabili. Félagið hefur auglýst að frítt sé á leikinn.
- Besta deild kvenna í knattspyrnu, neðri hluti
Boginn kl. 18:00
Þór/KA - Fram
Fyrir lokaumferðina er Þór/KA í 7. sæti deildarinnar, efsta sæti neðri hlutans, með 27 stig úr 20 leikjum, en Fram er með 25 stig. Í viðureignum þessara liða fyrr á tímabilinu unnust báðir leikirnir á útivelli. Þór/KA vann 3-1 á Lambhagavellinum í Úlfarsárdal, en Fram vann dramatískan 2-1 sigur með marki í viðbótartíma í Boganum í seinni umferðinni.
Handbolti í Hafnarfirði
Þórsarar eiga verðugt verkefni fyrir höndum í kvöld í 6. umferð Íslandsmótsins í handbolta, heimsókn í Kaplakrika þar sem þeir mæta FH á fimmtudag.
- OLÍS-deild karla í handknattleik
Kaplakriki kl. 18:30
FH - Þór
FH-ingar eru þó ekki nema sæti ofar en Þórsarar. FH hefur unnið tvo af fyrstu fimm leikjum sínum og situr í 9. sætinu með fjögur stig. Þór er í 10. sætinu með þrjú stig, en Þórsarar unnu ÍR og gerðu jafntefli við Stjörnuna á heimavelli og bíða því eftir fyrsta stigi eða stigum á útivelli.