Fara í efni
Íþróttir

„Fjórir fuglar í röð er mjög góð tilfinning!“

Lárus Ingi slær af teig á Íslandsmótinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

„Pútterinn datt í gang á seinni níu,“ sagði Lárus Ingi Antonsson úr GA við Akureyri.net eftir að hann lauk keppni á Íslandsmótinu í golfi í dag. Hann lék seinni níu holurnar á 30 höggum, sem er glæsileg spilamennska; fór fjórar holur á pari og fimm á einu höggi undir pari.

Hann púttaði sem sagt af stakri snilld seinni hluta vallarins og var eini keppandinn á mótinu sem afrekaði að leika fyrri eða seinni níu holur vallarins á svona fáum höggum.

Lárus Ingi, sem er 19 ára og varð Akureyrarmeistari um daginn, var á þremur höggum yfir pari fyrir síðasta daginn. Hafði leikið á 126 höggum og fór af stað í fimmta holli. En frammistaðan í gær gerði það að verkum að hann endaði jafn fjórum öðrum í 3. til 6. sæti. „Ég var búinn að slá vel í öllu mótinu, hafði bara ekki púttað nógu vel. En það breyttist í dag,“ sagði Lárus Ingi.

Staðan fyrir síðasta dag var vonbrigði en Akureyrarmeistarinn mætti til leiks á fyrsta teig staðráðinn í því að gera sitt allra besta. „Ég hugsaði bara um að spila gott golf, eins og ég hafði verið að gera, og reyna að færa mig upp listann. Ég vonaði að allt myndi smella saman, sem það gerði ekki alveg á fyrri níu, en svo gerðist það á seinni níu holunum. Eftir par á tíundu braut fékk ég fjóra fugla í röð, og það er mjög góð tilfinning!“

Hann lék næstu þrjár holur á pari og kórónaði svo góða frammistöðu með því að fara 18. holuna á fugli, notaði aðeins tvö högg. Setti langt pútt niður í lokin.

„Já, ég er sáttur við niðurstöðuna. Þriðja sætið er frábært en samt vantaði svo lítið upp á að ég hefði alveg eins getað unnið þetta. Það var alveg hægt; fyrsti dagurinn klikkaði aðeins, það var versti hringurinn minn, annar dagurinn var flottur, gærdagurinn allt í lagi og svo gekk aftur vel í dag.“

Þriðja sætið glæsilegur árangur og að leika völlinn á einu höggi undir pari á fjögurra daga móti. En markmið Lárusar Inga er ekkert leyndarmál: „Að sjálfsögðu er stefnan að vinna Íslandsmótið einhvern tíma.“